Innlent

Stal fimm lítra vín­flösku með um 60 þúsund króna þjór­fé starfs­fólks

Atli Ísleifsson skrifar
Stuldurinn á Lebowski bar átti sér stað í september á síðasta ári.
Stuldurinn á Lebowski bar átti sér stað í september á síðasta ári. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða fangelsi fyrir að hafa stolið föt fyrir 150 þúsund krónur úr verslun 66° norður, og vínflösku í eigu starfsmanna veitingastaðarins Lebowski bar á Laugavegi sem innihélt þjórfé að andvirði um sextíu þúsund króna. Maðurinn var einnig dæmdur fyrir fjölda annarra brota.

Fresta skal fullnustu refsingarinnar haldi maðurinn skilorð í tvö ár, en auk þess er maðurinn sviptur ökurétti í átján mánuði og fíkniefni í hans eigu gerð upptæk. Þá er hann dæmdur til að greiða rúmlega 800 þúsund krónur í sakarkostnað.

Ákæran var í tíu liðum, en þar eru rakin röð þjófnaðar-, fíkniefna- og umferðarlagabrota sem framin voru á tímabilinu september 2020 til júlí 2021.

Maðurinn var meðal annars sakfelldur fyrir að hafa farið í heimildarleysi inn í vaktstjóraherbergi í verslun Iceland að Arnarbakka í Reykjavík og stolið þaðan 70 þúsund krónur í reiðufé. Nokkrum dögum síðar fór hann inn í verslun 66° norður í Miðhrauni og stal þaðan fatnaði að verðmæti 150 þúsund króna.

Í september 2020 fór hann inn á veitingastaðinn Lebowski bar í miðborg Reykjavíkur og stal þaðan fimm lítra vínflösku í eigu starfsmanna veitingastaðarins, en í flöskunni var að finna þjórfé í þeirra eigu að verðmæti um 60 þúsund króna. Þá var hann einnig ákærður fyrir að hafa stolið jakka úr versluninni Urban í Kringlunni og sömuleiðis fyrir að hafa ítrekað ekið undir áhrifum slævandi lyfja.

Maðurinn sótti ekki þing við þingfestingu málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×