Innlent

Þurfti að draga þrisvar í sæti vegna klúðurs

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Birgir Ármannsson klúðraði úthlutun sæta þingmanna tvisvar.
Birgir Ármannsson klúðraði úthlutun sæta þingmanna tvisvar. Vísir/Vilhelm

Birgir Ármannsson, sem kjörinn var forseti Alþingis í dag, klúðraði hlutun þingmanna í sæti á Alþingi tvisvar í dag. Hann þurfti því að vísa þingmönnum tvisvar úr salnum og gera nokkrar tilraunir til að ná röðuninni réttri.

Eftir að hafa dregið í sæti fyrir formenn flokkanna, sem ekki hlutu ráðherrastól, og sæti fyrir þingflokksformenn uppgötvaði Birgir að hann væri ekki að draga sætanúmer úr réttum kassa. 

„Háttvirtir þingmenn eru beðnir afsökunar á því að í þessu flókna hlutaveltufyrirkomulagi hefur forseta orðið á þau mistök að draga kúlur úr röngum kassa,“ sagði Birgir og uppskar hlátur þingmanna. 

Birgir uppskar hlátrasköll þegar hann klúðraði úthlutuninni.Vísir/Vilhelm

„Þannig að það stendur sem áður lá fyrir með formenn stjórnmálaflokka en nú þarf að draga að nýju um sæti formanna þingflokka. Það var eitthvað í þessu sem ekki passaði.“

Og svo byrjaði hann aftur að hluta til sætum til formanna þingflokka. Þegar því var lokið fór hann að draga í sæti fyrir aðra þingmenn, sem var gert í stafrófsröð. 

Þegar kom að Birni Leví Gunnarssyni, sem fékk úthlutað sæti númer 10, kom í ljós að Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni hafði þegar verið úthlutað sætinu. 

„Forseti biður þingmenn að hinkra andartak á meðan athugað er með bókhaldið,“ sagði Birgir þá og enn fleiri hlógu.

„Þar sem hefur orðið ruglingur á kúlum í kassanum þá ætlar forseti að gera hlé á þessum fundi í fimm mínútur þannig að hægt sé að leiðrétta þennan misskilning.“

Úthlutunin tókst svo í þriðja skiptið og hafa allir þingmenn nú fengið úthlutað þingsæti. 

Hér að neðan má sjá bút af klúðrinu:

Klippa: Klúður í úthlutun sæta á Alþingi


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.