Lífið

Rauð­vín­s­peningurinn fer í jóla­skraut úr legó­kubbum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hjónin Jóhanna Stefáns­dóttir og Björg­vin Birgis­son eru sann­kallaðir legó­unn­endur.
Hjónin Jóhanna Stefáns­dóttir og Björg­vin Birgis­son eru sann­kallaðir legó­unn­endur. Vísir/Egill

Hjón í Hafnarfirði hafa sett upp töfrandi jólaþorp úr legókubbum á heimili sínu, sjöunda árið í röð. Alltaf bætist í legósafn þeirra og fer stofan bráðum að verða of lítil undir þetta ótrúlega áhugamál þeirra.

Þau Jóhanna Stefáns­dóttir og Björg­vin Birgis­son eru sann­kallaðir legó­unn­endur og hafa safnað ýmsum settum frá þessum heims­þekkta leik­fanga­fram­leiðanda í gegn um árin. Síðustu sjö ár hafa þau síðan sett upp jóla­þorp úr legó­kubbum í stofunni sinni.

Við fengum að kíkja við á heimili hjónanna og skoða þetta magnaða jóla­skraut.

„Við byrjuðum svona af ein­hverju ráði árið 2015. Svo hefur þetta smá undið upp á sig. Og í kóvídinu þá sprakk þetta bara alveg út,“ segir Jóhanna.

Eruði saman í því að setja þetta allt upp?

„Hún er meira í þessu en jú, jú ég hef gaman að þessu líka sko,“ svarar Björg­vin.

En krakkarnir?

„Þeir eru meira svona í skipu­lagi og list­rænir ráðu­nautar. Þeir koma með krítík þegar þetta gengur ekki alveg upp hjá manni. Reyndar finnst mér þeir full­raun­sæir stundum,“ segir Jóhanna.

Jóhanna og Björgvin kynntust fyrir tuttugu árum. Hún ber ábyrgð á jólaskreytingum heimilisins.vísir/egill

LEGO fram­leiðir sér­staka jóla­seríu og gefur út nýtt jóla­sett á hverju ári. Jóhanna og Björg­vin eiga að sjálf­sögðu alla legó­kassana úr jóla­seríunni og hafa reyndar gengið enn lengra og komið fyrir ýmsu öðru efni í þorpinu.

Stofan er þannig undir­lögð af legó­kubbum og fer bráðum að vanta pláss fyrir næstu jóla­út­gáfur frá LEGO.

„Við þurfum bara að stækka!“ segir Björg­vin en Jóhanna er ekki kannski ekki alveg á sama máli: „ Það er nú allt matar­borðið eftir og lykla­borðið. Þannig að við getum alveg bætt við... svo getum við alltaf fært sjón­varpið.“

Legójólaskrautið er farið að teygja sig út fyrir kommóðuna sem var upprunalega ætluð því. Ætli borðstofuborðið verði einnig orðið undirlagt á næsta ári?vísir/egill

„Hann hélt ég væri geggjuð“

Hjónin geta ekki giskað á hve miklir fjár­munir hafi farið í LEGO í gegn um tíðina þó þeir séu tví­mæla­laust tals­verðir.

„Við hættum að drekka fyrir 10 árum. Ég kalla þetta rauð­vín­s­peninginn þannig að... En við eigin­lega viljum ekkert vera að taka það mikið saman hvað er búið að fara í þetta,“ segir Jóhanna og hlær.

Jóhanna er tví­mæla­laust meira jóla­barn en Björg­vin, sem viður­kennir þó að allt jóla­skrautið sé nú dá­lítið huggu­legt.

LEGO gefur árlega út nýjan pakka undir jólalínu sinni sem heitir á ensku Winter Village. Hjónin eiga alla pakkana úr seríunni.vísir/egill

„Það eru ein­hver tuttugu ár síðan við kynntumst og hann hélt ég væri geggjuð þegar hann sá niður í geymslu hjá mér í fyrsta sinn. Það voru ein­hverjir átta kassar af jóla­skrauti. Honum fannst það dá­lítið mikið,“ segir Jóhanna.

„Og þá var ekki legóið komið sko,“ bendir Björg­vin á. „Þetta er mikill burður hjá mér fyrir jólin, að fara niður að ná í kassa.“

Það týnir enginn lyklum á þessu heimili í Hafnarfirði. Legókubbar eru festir við allar lyklakippur heimilisfólksins og þær hengdar beint upp á hillu við heimkomu sem búið er að festa á aðra legókubba.vísir/egillFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.