Fótbolti

Tvær 2001 stelpur marka­drottningar ís­lenska lands­liðsins á árinu 2021

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoruðu saman átta mörk fyrir íslenska landsliðið á árinu 2021.
Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoruðu saman átta mörk fyrir íslenska landsliðið á árinu 2021. Samsett/Vilhelm &Hulda Margrét

Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir voru báðar á skotskónum í gær í síðasta leik íslenska kvennalandsliðsins á árinu 2021.

Íslenska liðið endaði árið með 4-0 útisigri á Kýpur í undankeppni HM 2023 og íslenska liðið hefur þar með unnið þrjá síðustu leiki sína í keppninni.

Með þessum mörkum tryggðu þær Sveindís og Karólína sér efsta sætið á markalista landsliðsins á árinu því báðar skoruðu þær fjögur mörk í landsleikjum ársins.

Sveindís skoraði mörkin sín í átta leikjum en Karólína Lea lék einum leik meira á árinu.

Karólína Lea skoraði markið sitt í gær beint úr aukaspyrnu en Sveindís Jane skoraði markið sitt eftir stoðsendingu frá Karólínu Leu.

Þær Sveindís Jane og Karólína Lea eru svo sannarlega framtíðarleikmenn liðsins því þær eru báðar fæddar árið 2001 og héldu því upp á tvítugsafmælið á árinu.

Sveindís Jane skoraði tvö mörk í fyrsta landsleik sínum á móti Lettlandi 17. september í fyrra. Hún lék svo níu landsleiki í röð án þess að skora. Sveindís komst aftur á skotskóna í sigri á Kýpur á Laugardalsvellinum í október með tveimur mörkum og hefur nú skorað í síðustu þremur landsleikjum sínum.

Karólína Lea skoraði bæði í vináttulandsleikjum á móti Ítalíu í apríl og á móti Írlandi í júní auk þess að skora mark í báðum sigurleikjunum á móti Kýpur.

  • Flest mörk íslenska kvennaalandsliðsins á árinu 2021:
  • 4 mörk - Sveindís Jane Jónsdóttir (8 leikir)
  • 4 mörk - Karólína Lea Vilhjálmsdóttir (9 leikir)
  • 3 mörk - Dagný Brynjarsdóttir (7 leikir)
  • 3 mörk - Berglind Björg Þorvaldsdóttir (9 leikir)
  • 2 mörk - Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (8 leikir)
  • -
  • Markadrottningar kvennalandsliðsins undanfarin ár:
  • 2021: Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir með 4 mörk
  • 2020: Dagný Brynjarsdóttir með 4 mörk
  • 2019: Elín Metta Jensen með 6 mörk
  • 2018: Glódís Perla Viggósdóttir með 4 mörk
  • 2017: Elín Metta Jensen með 4 mörk
  • 2016: Harpa Þorsteinsdóttir með 7 mörk
  • 2015: Margrét Lára Viðarsdóttir með 4 mörk
  • 2014: Dagný Brynjarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir með 7 mörk



Fleiri fréttir

Sjá meira


×