Innlent

Óttast að Land­­spítali virki frá­hrindandi sem vinnu­­staður fyrir ungt fólk

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vonar að nýr meðferðarkjarni spítalans laði ungt fólk í störf. 
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vonar að nýr meðferðarkjarni spítalans laði ungt fólk í störf.  Vísir/Vilhelm

Heil­brigðis­ráð­herra telur hættu á að orð­ræða og tíðar kvartanir starfs­fólks Land­spítala gætu orðið til þess að gera vinnu­staðinn frá­hrindandi fyrir ungu heil­brigðis­menntuðu fólki. Það sé ó­heppi­legt í ljósi mönnunar­vanda spítalans.

Mönnunarvandi og húsnæðisskortur eru þau atriði sem allir á Landspítalanum nefna þegar þeir kvarta yfir ómögulegum starfsháttum sínum.

Neyðarkall hefur borist frá hinum ýmsu sviðum og deildum spítalans nánast mánaðarlega síðustu misseri og gengu fimm starfsmenn svo langt að segja upp á bráðamóttökunni í vikunni.

„Mér finnst þetta bara mjög alvarlegt. Og ég held það sé mjög mikilvægt að bæði stjórnendur á spítalanum og stjórnvöld leggi við hlustir þegar að kallað er eftir viðbrögðum og aðgerðum. Og ég held að við eigum stöðugt að vera að velta því fyrir okkur með hvaða hætti er hægt að gera betur,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Nýr meðferðarkjarni lokki ungt fólk að

Það sé ómögulegt að leysa þessi vandamál einn, tveir og þrír en bygging nýs meðferðarkjarna Landspítalans eigi að létta mjög á húsnæðisskortinum.

„Það er auðvitað endalaust mikilvægt og það skiptir líka máli þegar kemur að mönnuninni. Það er að segja að ungt heilbrigðismenntað starfsfólk sjái að hér sé spennandi og gaman að vinna vegna þess að hér er nútímalegur spítali með besta mögulega tækjabúnað og svo framvegis," segir Svandís.

„Vegna þess að það skiptir líka máli þegar að fólk er að ákveða hvar það vill vinna.“

Heldurðu að þessar stanslausu umkvartanir séu kannski einmitt til þess fallnar að verka öfugt á ungt heilbrigðismenntað fólk; að þetta virðist kannski vera fráhrindandi vinnustaður og að við séum komin í einhvern vítahring með þetta?

„Þetta er náttúrulega alltaf ákveðin hætta þegar umræðan þróast með þeim hætti að það eru fleiri gallar en kostir við viðkomandi vettvang. En ég held að svona þegar á heildina er litið þá getum við öll verið sammála um það að íslensk heilbrigðisþjónusta er í hæsta gæðaflokki á heimsvísu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.