Innlent

Ótækt að úrbætur strandi á landeigendum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Landsbjörg.
Jónas Guðmundsson, verkefnastjóri hjá Landsbjörg.

Björgunarsveitarmaður segir ótækt að ekki hafi enn verið hægt að koma upp nauðsynlegum öryggisbúnaði í Reynisfjöru, þar sem banaslys varð í gær. Fjármagn hafi löngu verið tryggt en málið strandi á landeigendum.

Lögregla á Suðurlandi rannsakar slysið en ung kínversk kona lést þegar hún barst út á sjó með öldu. Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að tekin hafi verið skýrsla af samferðafólki konunnar í gærkvöldi. Þá sé fyrirhuguð krufning á líki hennar. 

Konan var í ferð á vegum ferðaþjónustufyrirtækisins Tröllaferða en málið er í ferli þar innanhúss, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. 

Getur verið betra að synda frá fjörunni

Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg var í aðgerðastjórn vegna slyssins í gær. Hann segir aðstæður í Reynisfjöru hafa verið afar erfiðar.

„Sem betur fer náðu þrír að krafla sig upp í fjöruna aftur, rennblaut, en því miður fór það svo að ein kona nær því ekki og dregst þarna út með öldunni. Þá er erfitt að koma við björgun fyrr en viðkomandi er kominn út fyrir ölduna og út á lygnan sjó. En það átta sig ekki allir á því að það getur verið betra að synda frá fjörunni heldur en að fjörunni,“ segir Jónas.

Ótækt að ekki sé hægt að taka skrefið

Slysið í gær er fimmta banaslysið í Reynisfjöru undanfarinn rúman áratug. Í fjörunni eru skilti sem vara við hættunni, auk björgunarhringja og fleira. Þá séu leiðsögumenn duglegir að upplýsa hópa sína. 

Jónas bendir hins vegar á að til hafi staðið að setja upp viðvörunarfána, blikkljós og jafnvel hlið þannig að loka mætti fjörunni þegar aðstæður eru sérstaklega slæmar.

„Ferðamálaráðherra var búinn að tryggja fjármagn til að koma þessu upp og gera þetta en því miður strandaði málið á hluta landeigenda sem sem höfnuðu þessu bara. Okkur sem störfum að slysavörnum finnst auðvitað ótækt að ekki sé hægt að taka þetta skref í öryggisátt, sem væri stórt skref þarna í fjörunni,“ segir Jónas.


Tengdar fréttir

Konan fannst látin í sjónum

Konan sem leitað var að í sjónum við Reynisfjöru fannst látin á sjötta tímanum í dag. Hún var kínverskur ferðamaður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×