Fótbolti

Minnir á mál Tonyu og Nan­cy Kerrigan: Myndaðar saman á Kópa­vogs­velli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aminatu Diallo er hér lengst til vinstri en Kheira Hamraoui ræðir málin við liðsfélaga sinn Kadidiatou Diani þegar þær ganga af velli í leiknum á móti Breiðabliki á Kópavogsvellinum.
Aminatu Diallo er hér lengst til vinstri en Kheira Hamraoui ræðir málin við liðsfélaga sinn Kadidiatou Diani þegar þær ganga af velli í leiknum á móti Breiðabliki á Kópavogsvellinum. Getty/Hafliði Breiðfjörd

Það er óhætt að segja að mál frönsku landsliðskvennanna hjá Paris Saint Germain minnir mikið á mál bandarísku skautadansaranna Tonyu Harding og Nancy Kerrigan.

Aminatu Diallo var handtekin í gærmorgun í tengslum við árás á liðsfélaga hennar Kheiru Hamraoui. Þær eiga í mikilli samkeppni um sæti á miðju hins sterka Paris Saint Germain liðs.

ESPN hefur heimildir fyrir því að árásin hafi staðið yfir í meira en tvær mínútur og að Diallo hafi verið að skutla Hamraoui heim eftir liðsfund í París.

Í bílnum voru þær tvær ásamt tveimur öðrum leikmönnum PSG. Þegar Diallo stoppaði fyrir framan hús Hamraoui þá réðust að henni tveir grímuklæddir menn með járnstangir, toguðu hana út úr bílnum og létu höggin dynja á fótum hennar með í tvær mínútur áður en þeir hlupu í burtu.

Erlendir fjölmiðlar hafa notað mynd af þeim Aminatu Diallo og Kheiru Hamraoui saman þegar þær voru að báðar að spila á móti Breiðabliki á Kópavogsvellinum. Þær sjást þar ganga af velli í hópi með öðrum leikmönnum PSG. Breiðablik og PSG eru einmitt saman í riðli í Meistaradeildinni.

Málið minnir mikið á það sem gerðist í aðdraganda Vetrarólympíuleikanna í Lillehammer árið 1994. Skautakonan Nancy Kerrigan varð þá fyrir árás fyrir leikana og seinna kom í ljós að eiginmaður Tonyu Harding hafði skipulagt árásina. Nancy Kerrigan og Tonya Harding voru að keppa um sæti í Ólympíuliði Bandaríkjanna.

Kerrigan meiddist það illa í árásinni að hún gat ekki tekið þátt í úrtökumóti fyrir Ólympíuleikanna þar sem Harding tryggði sér sæti í Ólympíuliðinu. Kerrigan náði sér hins vegar af meiðslunum fyrir leikana og fékk að vera með. Kerrigan vann þar silfurverðlaun. Harding hefur alltaf neitað að hafa komið að skipulagningu árásarinnar en viðurkenndi sök sína að hafa hindrað réttvísina í rannsókn málsins.

Málið var risafréttamál á sínum tíma og síðan hefur verið meðal annars verið gerð Hollywood mynd um Tonyu Harding með þetta mál í fararbroddi. Myndin heitir „I, Tonya“ og fór Margot Robbie með hlutverk Harding.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×