Innlent

Færri at­vinnu­lausir og styttri vinnu­tími en í fyrra

Þorgils Jónsson skrifar
Atvinnuleysi mældist 4% á þriðja ársfjórðingi, sem er nokkru minna en á sama tíma í fyrra.
Atvinnuleysi mældist 4% á þriðja ársfjórðingi, sem er nokkru minna en á sama tíma í fyrra. Vísir/Vilhelm

Um 8.500 manns voru að meðaltali án atvinnu á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt tölum frá Hagstofu. Það jafngildir um 4% af heildarvinnuafli 16 til 74 ára. Á sama tíma í fyrra voru um 12.000 einstaklingar atvinnulausir, eða um 5,8%. 

Á sama tímabili fækkaði meðalfjölda heildarvinnustunda þeirra sem voru í vinnu, úr 39,4 klukkustundum í fyrra niður í 37,8 vinnustundir í ár.

Karlar unnu í ár 40,7 stundir að meðaltali og konur 34 stundir. Hjá báðum kynjum styttist vinnutíminn um rúmlega eina og hálfa klukkustund á viku.



Á þriðja ársfjórðungi voru 53.400 manns utan vinnumarkaðar eða 20,2% af mannfjölda 16-74 ára. Af konum voru 29.600, eða 23,1%, utan vinnumarkaðar og af körlum voru 23.800 utan vinnumarkaðar eða 17,4%. Á sama tíma í fyrra voru 55.000 utan vinnumarkaðar eða 21% af mannfjölda.

  • Af þeim sem voru utan vinnumarkaðar á þriðja ársfjórðungi í ár skilgreindu flestir sig sem eftirlaunafólk, alls 17.500 einstaklingar eða 32,7%.
  • 14.800 sögðust vera öryrkjar eða fatlaðir, eða 27,6%.
  • 9.800 skilgreindu sig sem námsmenn, eða 18,3%.
  • 3.500 manns sögðust veikir eða tímabundið ófærir til vinnu eða 6,6%.
  • 2.800 þeirra sem voru utan vinnumarkaðar töldu sig vera atvinnulausa, eða 5,3%. Þessir einstaklingar teljast þó ekki atvinnulausir í niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar, segir Hagstofan, þar sem þeir uppfylla ekki skilgreiningu rannsóknarinnar á atvinnuleysi.
  • Um 3.600 manns voru heimavinnandi eða í fæðingarorlofi, eða 6,8%.
  • Um 1.500 manns, eða 2,8%, skilgreindu stöðu sína með einhverjum öðrum hætti


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×