Sport

Skólastjórinn baðst afsökunar á 106 stiga sigri liðs síns

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikur Inglewood og Morningside menntaskólanna var lítt spennandi.
Leikur Inglewood og Morningside menntaskólanna var lítt spennandi.

Skólastjóri Inglewood menntaskólans í Kaliforníu hefur beðist afsökunar á risasigri liðs skólans á liði Morningside menntaskólans í amerískum fótbolta.

Í síðustu viku vann Inglewood Morningside, 106-0. Í kjölfarið fékk Inglewood gagnrýni fyrir skort á íþróttamennsku og að sýna Morningside vanvirðingu. 

Þjálfari Morningside, Brian Collins, var sérstaklega ósáttur við að Inglewood hafi reynt við tveggja stiga tilraun í stöðunni 104-0 í stað þess að sætta sig við eitt hefðbundið stig.

Í kjölfarið sendi Debbie Tate, skólastjóri Inglewood, frá sér yfirlýsingu þar sem hún baðst afsökunar á sigrinum stóra.

„Við sýndum hvorki íþróttaanda né komum fram af heilindum og úrslitin voru óásættanleg,“ sagði Tate í yfirlýsingunni. Þar kom einnig fram að þjálfari Inglewood hafi beðist afsökunar á sigrinum stóra og framferði liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×