Innlent

Málefnalegar ástæður fyrir því að 20 starfsmenn Landspítalans hafni bólusetningu

Snorri Másson skrifar
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans.
Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans. Vísir/Egill

Starfandi forstjóri Landspítalans segir að spítalinn hafi brugðist eins vel við og hann gat þegar hópsmit kom upp á hjartaskurðdeild. Hún kveðst skilja vel að aðstandendur séu sárir vegna málsins. 

Fimmtíu og átta greindust með kórónuveiruna innanlands í gær, sem eru ívið færri en undanfarna daga. Kann það að skýrast af því að færri einkennasýni séu tekin um helgar. Tveir eru á gjörgæslu samkvæmt nýjustu uppýsingum.

Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, forstjóri Landspítala, vill að fólk viðhafi persónubundnar sóttvarnir.

„Ég segi það að fara varlega, nota grímur, það er ekki íþyngjandi að nota grímu og huga að handhreinsun. Það er alveg það minnsta sem við getum gert,“ segir Guðlaug.

Nýlega kom fram að 480 starfsmenn á Landspítala væru ekki bólusettir en aðeins 20 þeirra hafa hafnað bólusetningu.

„Það eru sárafáir sem eru ekki bólusettir, þeir eru í kringum 20 samkvæmt síðustu úttekt og ástæða þess að þeir eru ekki bólusettir eru mjög málefnalegar,“ segir Guðlaug.

Að minnsta kosti fimm greindust með veiruna á hjartaskurðdeild í liðinni viku eftir að hópsýking kom upp. Sumir voru nýbúnir í opnum skurðaðgerðum og því í viðkvæmri stöðu og aðstandendur sem fréttastofa hefur rætt við hafa ekki lýst viðbrögðum spítalans sem fullnægjandi.

Aðstandendur eru auðvitað sumir sárir og sjálfir sjúklingarnir að fá þetta áfall eftir svona erfiðar aðgerðir, hvað hefurðu við það fólk að segja? 

„Þetta er mjög erfitt þegar svona kemur upp og ég skil það mjög vel. En svona hlutir gerast þegar það eru smit í samfélaginu. Þá getur komið smit inn á spítalann, því miður, og það gerðist í þetta skiptið, því miður,“ segir Guðlaug.

Og var brugðist nógu hratt við og látið nógu snemma vita af þessu?

„Já, það var algerlega brugðist mjög vel við og algerlega nógu hratt, eins vel og við getum gert, þannig að þar var í raun og veru allt gert rétt,“ segir Guðlaug Rakel.


Tengdar fréttir

600 óbólu­settir starfs­menn Land­spítalans graf­alvar­legt mál

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar vill vart trúa því að 600 starfsmenn Landspítalans séu óbólusettir og það hljóti að koma til álita hjá stjórnendum spítalans að breyta því hvaða afskipti þeir hafa af viðkvæmum sjúklingum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×