Innlent

Mál Gráa hersins gegn Tryggingastofnun tekið til meðferðar

Snorri Másson og Árni Sæberg skrifa
Helgi Pétursson er formaður landssamband eldri borgara.
Helgi Pétursson er formaður landssamband eldri borgara. Stöð 2

Aðalmeðferð í máli þriggja félaga Gráa hersins gegn Tryggingastofnun vegna skerðinga á ellilífeyri hófst í morgun. Eftir hana var blásið til samstöðufundar á Austurvelli, þar sem ræðumenn fóru hörðum orðum um stöðu eldri borgara í íslensku samfélagi. 

Málsókn félagsins hefur verið í undirbúningi árum saman og er gífurlega umfangsmikil. Þar er krafist endurgreiðslu á tugum milljarða króna til handa eldri borgurum.

Helgi Pét­urs­son, formaður Lands­sam­bands eldri borg­ara, segir í samtali við fréttastofu að málinu hafa verið frestað fjórum sinnum en það hafi verið þingfest í vor en ekki tekið til aðalmeðferðar fyrr en nú.

„Við erum auðvitað sigurviss og erum að berjast gegn þessum ósanngjörnu skerðingum. Þetta er náttúrulega eins sorglegt og það getur orðið, að þurfa að standa í málaferlum gegn samfélagi sínu en menn vilja ekki ræða neitt fyrr en í fulla hnefana. Og kannski má segja að menn hanga eins og hundar á roði á þessum peningum sem eru teknir af þessari kynslóð: 45,5 milljarðar á ári,“ segi Helgi.

Hann segir að skerðingar á kjörum eldri borgara ekki eiga sér enga rökrétta skýringu. 

„Mér finnst þetta bara vera hagfræði 101. Ef þessir peningar eru greiddir út og við fáum þá til afnota, hvað haldið þið að við gerum, hlaupum eitthvað burt og felum okkur?“ segir Helgi.

Hann segir eldra fólk vera líklegra til að eyða peningum sínum en yngra fólk, til dæmis eyði það peningum í ferðaög og barnabörnin. „Þetta kemur allt inn í ríkiskassann í sköttum og einhver reiknaði meira að segja út að ríkisvaldið færi í plús.“

 „Komið út fyrir öll þjófamörk“

Helgi segir að upphaflega hafi lífeyrissjóðum verið ætlað að vera uppbót við lífeyri frá Tryggingastofnun en að með tímanum og stækkun lífeyrissjóðakerfisins hafi menn freistast til þess að taka peninga af ellilífeyrisþegum.

„Þetta er ósanngjarnt og þetta er komið út fyrir öll þjófamörk. 83,7 prósent af hundraðkallinum, þetta er bara allt of mikið,“ segir Helgi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×