Innlent

Fjöl­skyldu­tengsl bæjar­stjóra við geranda í kynferðisbrotamáli

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Höfn í Hornafirði.
Höfn í Hornafirði. Vísir/Vilhelm

Sveitarfélagið Hornafjörður gaf frá sér yfirlýsingu vegna fjölmiðlaumfjöllunar í tengslum við dómsmál fyrr í dag. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu varðar dómsmálið brot þáverandi starfsmanns bæjarins gegn samstarfskonu í vinnuferð.

Í yfirlýsingunni segir að sveitarfélagið hafi verið upplýst um að brotaþoli, sem þá var starfsmaður sveitarfélagsins, hafi lagt fram kæru á hendur konu sem starfaði sem stjórnandi hjá sveitarfélaginu. Í kjölfar kærunnar hafi staðgengill bæjarstjóra tekið að sér samskiptin við brotaþola. Kæran var lögð fram í apríl árið 2019 en dómur féll í málinu nýverið.

Fjölskyldutengsl bæjarstjórans og ákærðu

Það kemur ekki sérstaklega fram í yfirlýsingunni hver tengsl bæjarstjórans og stjórnandans eru en Mannlíf hélt því fram nýverið að systir bæjarstjórans hafi verið umræddur stjórnandi. Fréttastofa hefur gögn undir höndum sem styðja fullyrðingu miðilsins. 

Bæjarstjóri Hornafjarðar, Matthildur Ásmundardóttir, staðfestir í samtali við fréttastofu að fjölskyldutengsl hafi orðið til þess að hún hafi þurft að víkja í málinu. Hún vildi þó ekki tjá sig nánar um eðli þessara tengsla.

„Er þetta ekki bara kósý?“

Stjórnandinn var dæmd til tveggja mánaða skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn samstarfskonu sinni. Fram kemur í dómi héraðsdóms að samstarfskonurnar hafi verið í vinnuferð í Reykjavík og lágu hlið við hlið í samliggjandi rúmum á hótelherbergi. Konunni var gefið að sök að hafa tekið um hönd samstarfskonu sinnar og látið hana strjúka nakinn líkama sinn. 

Þegar samstarfskonan gaf til kynna að hún vildi ekki strjúka ákærðu hafi hún þá strokið henni utanklæða frá brjóstum niður að læri. Í kjölfarið hafi hún lagt andlit sitt upp að andliti hennar og sagt meðal annars: „Er þetta ekki bara kósý?“ Héraðsdómari taldi sannað að stjórnandinn hafi sýnt af sér háttsemina sem lýst er hér að ofan, þrátt fyrir neitun hennar þar um.

Töldu ekki ástæðu til að aðhafast þrátt fyrir kæru

Sveitarfélagið Hornafjörður segir meðal annars að ágreiningur hafi verið um málsatvik í upphafi. Þá væri brotaþoli ekki undirmaður stjórnandans og störfuðu þær ekki saman dags daglega. Brotaþoli hafi þar að auki sagt starfi sínu lausu áður en atvik málsins áttu sér stað. Sveitarfélagið taldi því að ekki hafi verið tilefni til sérstakra aðgerða á meðan rannsókn lögreglu stæði.

Þegar ákæruvaldið tók ákvörðun um að ákæra í málinu, í mars 2019, hafði umræddur stjórnandi flutt sig til í starfi og var því ekki lengur starfsmaður sveitarfélagsins. Í yfirlýsingunni segir enn fremur að þegar dómur hafi fallið nú í október hafi engar forsendur verið til aðgerða af hálfu sveitarfélagsins, enda hafi báðir málsaðilar látið af störfum.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.