Innlent

Hvarf í fjögur ár en birtist óvænt í dag

Snorri Másson skrifar
Narfi er á níunda ári en hefur verið á flakki síðustu fjögur. Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til, og kötturinn er kominn til eiganda síns í miðbæinn eftir allan þennan tíma.
Narfi er á níunda ári en hefur verið á flakki síðustu fjögur. Römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til, og kötturinn er kominn til eiganda síns í miðbæinn eftir allan þennan tíma. Vísir

Kötturinn Narfi er fundinn. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að fjögur ár eru síðan hann lét sig hverfa út um glugga í Hlíðunum. Eigandinn er í skýjunum, þótt kötturinn hafi óneitanlega elst um nokkur ár.

Narfi hafði verið týndur í fjögur ár en í dag gerðist hið ótrúlega að eigandi hans hafði upp á honum eftir alla leitina. Hann var reyndar farinn að heita Keli í Kattholti en allt var það byggt á misskilningi.

Keli, Narfi eða hvað það nú er, eins og danskur málsháttur kveður réttilega á um ber elskað barn ævinlega mörg nöfn. Þótt raunverulegt nafn kattarins sé sannarlega Narfi er ekki óeðlilegt að einhver hafi á einhverjum tímapunkti gefið honum nafnið Keli á týnda tímabilinu.

„Það hefur örugglega bara verið af því að hann er svo svakalega kelinn. Hann er alger elska þessi köttur,“ segir Tómas Hafsteinsson sjómaður, eigandi Narfa.

Narfi er upphaflega frá Selfossi og var gefinn til Tómasar þar sem hann bjó í Neskaupstað fyrir tæpum níu árum. Kettlingurinn óx úr grasi fyrir austan en þar kom að Tómas fluttist til Reykjavíkur vegna vinnu og Narfi með.

„Hann gat ekki farið með okkur á þáverandi heimili og þá fer hann í pössun hér í Hlíðunum og lét sig hverfa út um gluggann tveimur dögum síðar. Svo erum við búin að leita að honum í hverfinu og svo hef ég verið á sjó þannig að maður getur ekki alltaf verið. Hann er víst búinn að eiga einhver fjögur heimili í millitíðinni kallinn,“ segir Tómas.

Narfi er víðförull miðað við kött.Stöð 2

Tómas gaf aldrei upp vonina á að finna Narfa aftur og leit alltaf inn á vef Kattholts þegar hann átti stund milli stríða. Í morgun rak hann upp stór augu þegar kötturinn birtist allt í einu svo ekki varð um villst. Hann rauk uppeftir og í fangi hans varð Keli aftur að gamla góða Narfa.

„Ég er bara í skýjunum. Litli kallinn er kominn heim,“ segir Tómas.

Hvernig er að sjá köttinn sinn aftur eftir allan þennan tíma?

„Maður náttúrulega kannaðist við hann strax, en hann er náttúrulega orðinn svolítið gamall, það er bara eina. Orðinn átta eða níu ára gamall,“ segir Tómas. 

Aðeins stærri kannski? 

„Það er kannski kominn smá poki á hann,“ segir eigandinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.