Innlent

Sautján ára tekinn á 140 kílómetra hraða

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt.
Erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði sautján ára ökumann á Hafnarfjarðarvegi í gær. Hraði ökumannsins mældist 140 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 80 kílómetra hraði á klukkustund. Foreldrar ökumannsins voru látnir vita auk Barnaverndar.

Töluverður erill virðist hafa verið hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Lögregla þurfti meðal annars að hafa afskipti þónokkrum ökumönnum sem ýmist voru grunaðir um ölvun eða akstur undir áhrifum fíkniefna.

Rétt fyrir klukkan tólf í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um rafskútuslys í Vesturbænum. Í dagbók lögreglu segir að tveir hafi verið á sömu rafskútu en annar nefbrotnaði og hinn skarst á hendi. 

Skömmu síðar barst lögreglu tilkynning um innbrot í verslun en þar var hurð spennt upp og tveimur rafskútum stolið.

Þá fékk lögreglan tilkynningu um slys á veitingastað í miðbæ Reykjavíkur skömmu eftir miðnætti í gær. Þar hafði kona dottið niður stiga og rotast við höggið. Konan fékk skurð á höfuðið og var flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku.

Lögreglu var tilkynnt um líkamsárás á Lækjartorgi rétt eftir klukkan tvö í nótt. Þar hafði maður verið kýldur í andlitið en gerandi var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði. Við höggið féll maðurinn aftur fyrir sig og hlaut skurð á hnakka.

Lögregla stöðvaði þar að auki bifreið í Breiðholti í gær. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og reyndi að hlaupa af vettvangi þegar hann loks lét undan. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum fíkniefna og að hafa ekið án ökuréttinda.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×