Innlent

Sigurður Ingi styður allsherjar afléttingar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Formenn ríkisstjórnarflokkana þriggja funda um myndun nýrrar ríkisstjórnar.
Formenn ríkisstjórnarflokkana þriggja funda um myndun nýrrar ríkisstjórnar. Vísir/Vilhelm

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir ekki eiga að þurfa að rökstyðja hvers vegna frelsi eigi að vera á Íslandi. Sóttvarnalög séu til að takmarka frelsi og þá þurfi að rökstyðja, en ekki hið eðlilega venjulega ástand.

„Mér finnst allavega að við þurfum ekki að rökstyðja hvers vegna við eigum að hafa frelsi á Íslandi. Við erum með sóttvarnalög til að takmarka þau ef það er og það þurfum við að rökstyðja, en ekki hið eðlilega, venjulega ástand,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við fréttastofu fyrir utan ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu í morgun þar sem stjórnarmyndunarviðræður fara fram í dag. 

Hann segist styðja afléttingar sóttvarnatakmarkana, jafnvel allsherjar afléttingar. Ríkisstjórnin hafi verið að fylgjast með þróun takmarkana annars staðar á undanförnum vikum og í huga Sigurðar Inga sé alveg ljóst að við séum á mjög góðum stað hvað varðar faraldurinn.

„Við höfum auðvitað verið að fylgjast með því sem verið er að gera annars staðar. Í mínum huga er engin spurning um að við erum á mjög góðum stað. Ef við horfum á það sem er að gerast í faraldirnum í sambærilegum löndum, þá er ég fyrst og fremst að horfa til Norðurlandanna, þá eru þau komin lengra en við og við eigum að fara þangað,“ segir Sigurður. 

Hann segir stjórnarmyndunarviðræður ganga ágætlega. Fyrst og fremst nýti þau tímann til að teikna upp þá mynd sem flokkarnir þrír, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Vinstri græn, ætli að fylgja næstu fjögur árin. 

„Sem er ólík þeirri sem var síðustu fjögur ár. Nýjar áskoranir eftir heimsfaraldur, takandi á þessari loftslagsvá og efla hér störf innanlands. Það eru nýjar áskoranir sem voru ekki endilega fyrir fjórum árum,“ segir Sigurður. 

Hann segir ríkisstjórnina á sömu línu þegar að loftslagsmálum kemur. 

„Já, ég held að ef þú hlustar á ræðu forsætisráðherra á Arctic Circle í gær þá var hún svar um þða hvernig við eigum að komast út úr þessum vanda.“

Fréttir um stofnun nýs innviðaráðuneytis, sem er talsvert viðameira en áður hefur verið, hafa borist undanfarið og segir Sigurður til skoðunar að stofna slíkt ráðuneyti. 

„Það er eitt af því sem við erum að skoða. Einmitt nokkrar breytingar á stjórnkerfinu til að undirstrika þessa nýju stöðu. Eitt af því er auðvitað að fjórða stoðin í atvinnulífinu okkar er þekkingargeirinn. Hann hefur vaxið gríðarlega mikið meðal annars vegna fjárfestingarátaks núverandi ríkisstjórnar í gegn um heimsfaraldurinn. Kannski þurfum við að endurspegla stjórnkerfið betur hvað það varðar.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×