Lífið

Tapaði trúnni á lífið eftir missinn: „Ég sökk djúpt“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Hörður Ágústsson er gestur í nýjasta þættinum af hlaðvarpinu Snæbjörn talar við fólk.
Hörður Ágústsson er gestur í nýjasta þættinum af hlaðvarpinu Snæbjörn talar við fólk. STVF

Árið 2010 var keyrt á Hörð Ágústsson og er hann í dag átta prósent öryrki fyrir vikið. Þetta gerðist á mjög annasömum tíma þegar hann ásamt vinum sínum var að stofna fyrirtækið Macland, og lýsir Hörður þessu sem erfiðum tíma af sínu lífi.

 Árið eftir lést meðeigandi og vinur hans Hermann Fannar Valgarðsson og missti þá Hörður fótfestuna í lífinu að einhverju leyti.

Ég var ekkert á rosalega góðum stað. Ég lenti í bílslysi 2010, frekar alvarlegu. Það keyrði á mig aðili sem ég vona að hafi fengið viðeigandi aðstoð í öllum þeim kerfum sem standa til boða, hann var undir áhrifum alls konar efna. Ég slasaðist mjög illa,“ útskýrir Hörður.

„Ég sökk djúpt eftir að Hemmi dó, ég tapaði trúnni á lífið á þessum tíma. Ég skal viðurkenna það bara, ég trúði þessu bara ekki. Það tók mig alveg nokkur ár að komast upp úr því.“

Í mörg ár hefur Hörður gengið til sálfræðings og talar hann mjög vel um þá reynslu. Sálfræðingurinn hans hefur hjálpað honum að kynnast sjálfum sér og sínum þörfum betur, setja sér mörk og skilja það samhengi sem hann ólst upp í. Margar sínar tilfinningar telur Hörður stafa af of lágu sjálfsmati, sem hann telur að margir íslenskir karlmenn á hans aldri gætu tengt við.

„Ég vissi ekki hvað lágt sjálfsmat þýddi.“

Í viðtalinu segir Hörður frá ævintýri Macland og Hugleiks Dagssonar, sem var stressandi ferli því listamaðurinn lét Hörð lofa að skipta sér ekkert af ferlinu. Teikningarnar urðu umdeildar og má heyra um það verkefni í brotinu hér fyrir neðan.

„Jimmy Fallon tók þetta fyrir og hann byrjaði að followa á Twitter.“

Skilyrði í samningnum var að Hugleikur fengi einhverja leiðsögn frá fyrirtækinu, ynni sitt starf sjálfur og eftir afhendingu yrðu ekki gerðar athugasemdir eða breytingar á vinnu hans.

Hörður viðurkennir að teikningarnar hafi ekki staðist skoðun hjá Apple. Eitt sinn hafi Apple fyrirtækið gert athugasemd eftir að hafa fengið veður af auglýsingu yfir hafið. Macland sagði þó aldrei nei við verkum Hugleiks sem unnin voru fyrir fyrirtækið.

„Það varð allt brjálað hér heima og úti.“

Klippa: Snæbjörn talar við fólk - Hörður Ágústsson

Hörður lýsir sjálfum sér sem hálfgerðu fífli á mörgum tímapunktum í lífi sínu. Hann lærði viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík og eftir útskrift reyndi hann, að eigin sögn, að fylla upp í götin í líðan sinni með því að taka margt að sér, lifa hátt og reyna að gleypa sólina. Hann fór oft til útlanda, lifði um efni fram og var í lífsgæðakapphlaupi við vini sína. Þótt að hann sjái að hann hafi verið erfiður í umgengni segir Hörður líka að margt á þessu tímabili hafi verið mjög skemmtilegt.

Hörður talar um vitundarvakninguna í samfélaginu varðandi kynferðisbrot. Hann játar hér að hafa hugsað niðrandi til baráttufólksins fyrir nokkrum árum en í dag ber hann mikla virðingu fyrir þeim og finnst mikilvæg umræða vera að eiga sér stað. Einhvern tímann var honum ráðlagt að reyna bara að trúa þeim sem kæmu fram með sína reynslu og hefur hann ekki litið til baka síðan. Honum finnst umræðan vera á erfiðum stað á Íslandi í dag, þar sem einhver hluti samfélagsins virðist finna sig knúið til að kalla meinta brotaþola lygara af mikilli heift. Hann trúir þó að við séum á réttri leið þótt slagurinn sé ekki enn unninn.

„Mér finnst þetta rosalega fráhrindandi í fari fólks, þegar þú ert ekki á þessum vagni. Ég á mjög erfitt með það.“

Herði finnst mjög mikilvægt að kynna sér vel málefnið í #MeToo bylgjunum sem ganga yfir þessa daga. Honum finnst það skylda sín að lesa, læra og hugsa sig í gegnum málefnið svo hann geti rætt þetta við dætur sínar sem eru á táningsaldri og eru þau hjónin mjög samstíga um það. Hann finnur á dætrum sínum að þessi mál eru rædd í þeirra vinahópum og hann vill hjálpa þeim að þekkja sín mörk og að þær viti að foreldrar þeirra hugsi um þessi mál.

Þátturinn í heild sinni er kominn á Spotify. 


Tengdar fréttir

Óregla og áfengi á heimilinu og gekk í sjö grunnskóla á átta árum

Ásmundur Einar Daðason er fyrsti félags- og barnamálaráðherra Íslands, enda sá sem átti hugmyndina að stöðunni. Mikið af vinnu hans er drifið áfram af eigin reynslu af flókinni æsku, en sem barn gekk Ásmundur í sjö grunnskóla á átta árum, í tveimur löndum.

„Mér fannst þetta allt eins og einhver vísindaskáldsaga“

Þegar Þórólfur minntist fyrst á faraldurinn sem allir þekkja núna sem Covid-19, fannst Svandísi Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra þetta óraunverulegt í fyrstu. Flest af því sem hann spáði átti þó eftir að rætast. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×