Innlent

Minna eftir í veski landsmanna út af stöðunni í Reykjavík

Birgir Olgeirsson skrifar
Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fullyrðir að minna verði eftir í veski landsmanna um hver mánaðamót vegna stöðunnar í Reykjavík. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti með vísan í húsnæðisskort sem valdi hærra íbúðaverði. 
Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins fullyrðir að minna verði eftir í veski landsmanna um hver mánaðamót vegna stöðunnar í Reykjavík. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti með vísan í húsnæðisskort sem valdi hærra íbúðaverði.  Vísir/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir málfutning borgarstjóra um 3000 byggingarlóðir villandi. Alltof fáar íbúðir séu reistar á hverju ári í borginni sem komi niður á ráðstöfunartekjum heimilanna.

Borgarstjóri lýsti því yfir í síðustu viku að 3.000 lóðir væru lausar til uppbyggingar í Reykjavík. 

Ummælin komu Samtök iðnaðarins spánskt fyrir sjónir. Framkvæmdastjórinn segir vissulega 3.000 íbúðir á deiliskipulagi.

„Einu lóðirnar sem eru lausar ef maður fer á vef Reykjavíkurborgar eru í Gufunesi. Annað er ekki í boði. Þannig að þetta er villandi málflutningur,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. 

Sigurður segir það mikið áhyggjuefni hve fáar íbúðir hafa verið skipulagðar næstu árin.

„Vegna þess að á hverju einasta ári, næstu árin, þá þarf 3.500 nýjar íbúðir inn á markaðinn á landsvísu, að mati húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Reykjavíkurborg ætlar sér að skila eitt þúsund nýjum íbúðum inn á markaðinn á hverju ári. Það er allt of lítið.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.Vísir/Egill

Þessi þróun hafi áhrif á alla landsmenn. Seðlabankinn hefur hækkað stýrivexti um 0.75 prósent á stuttu tíma, með vísan skipulagsmál í Reykjavík og stöðuna á húsnæðismarkaðinum í borginni.

„Við finnum það öll um hver einustu mánaðamót að það er minna eftir í veskinu út af stöðunni í Reykjavík.“

Staðan komi einnig til með að hafa áhrif á kjaramál.

„Forsvarsmenn verkalýðsfélaganna hafa talað um það síðustu daga og vikur að húsnæðismál munu skipta miklu máli í komandi kjarasamningum eftir ár. Þannig að það er mikið í húfi að það verði tekið á þessu máli af festu þannig að ekki fari illa.“

Ekki standi á bönkunum.

„Ég hef það staðfest frá þremur af fjórum stóru bönkunum að þeir hafa mikinn áhuga og vilja til að lána til uppbyggingar af þessum toga. Svo það er ekkert til í þessum málflutningi borgarstjóra.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×