Innlent

Ekki talin þörf á endurtalningu í Suðurkjördæmi þó mjótt sé á munum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nýr miðbær á Selfossi
Nýr miðbær á Selfossi Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Formaður kjörstjórnar í Suðurkjördæmi segir ekki ástæðu til að ráðast í endurtalningu á atkvæðum í umdæminu þrátt fyrir að afar mjótt sé á munum. Gerð var úttekt á vinnubrögðum og verkferlum í dag og kom engin villa upp þegar tíu prósent kjörseðla höfðu verið skoðaðir.

Fram kom á þriðja tímanum í dag að tekin hefði verið sú ákvörðun í Norðvesturkjördæmi að telja atkvæði aftur. Von er á talningarfólki til starfa og má reikna með niðurstöðu um sexleytið.

Ástæðan er sú hve mjótt er á munum í kjördæminu. Tapi Viðreisn tveimur atkvæðum riðlast röðun jöfnunarþingmanna. Guðmundur Gunnarsson er jöfnunarþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi.

Vilja staðfesta rétta talningu

„Við ákváðum þegar við sáum að það væri lítill munur að við myndum endurtelja. Við viljum bara útiloka það að þetta sé ekki í lagi,“ sagði Ingi Tryggvason yfirmaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi.

Að sama skapi vantar Viðreisn aðeins tvö atkvæði í Suðurkjördæmi til að Guðbrandur Einarsson nái inn sem jöfnunarþingmaður. Það munar því aðeins tveimur atkvæðum hvort Viðreisn fái þingmann í Norðvestri eða Suðurkjördæmi sem hefur þá áhrif á alla halarófuna.

Þórir Haraldsson, yfirmaður kjörstjórnar í Suðurkjördæmi, segir alveg ljóst að mjög mjótt sé á munum. Bæði varðandi þessi tvö atkvæði sem Guðbrand Viðreisnarmann vantar en sömuleiðis muni aðeins sjö atkvæðum á greiddum atkvæðum til Vinstri grænna og Miðflokks í kjördæminu.

Jóhann Óli Eiðsson, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, rekur þetta nánar í þræði á Twitter. Eitt atkvæði niður hjá Viðreisn í Norðvesturkjördæmi og upp í Suðurkjördæmi hefur sömu áhrif. Jöfnunarþingmenn raðast upp á nýtt.

Ekki tilefni til 500 vinnustunda

„Við tókum þetta sérstaklega fyrir á fundi í dag, fórum yfir okkar verkferla og vinnubrögð,“ segir Þórir. Gerð var úrtakskönnun á vinnubrögðum. Eftir að búið var að fara yfir meira en tíu prósent af kjörseðlum án þess að villa fyndist taldist málið fullreynt.

Þórir segir ekki tilefni til að ráðast í 500 vinnustundaverkefni enda bendi ekkert til þess að talningin í kjördæminu sé röng. Það hafi verið sannreynt.

Yfirmaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi átti von á um þrjúleytið að tvær til þrjár klukkustundir tæki að ljúka endurtalningu í kjördæminu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×