Innlent

Stjórnmálamenn út, pítsur og súkkulaði inn

Snorri Másson skrifar
Kosningarnar eru búnar, það staðfesta auglýsingaskilti bæjarins.
Kosningarnar eru búnar, það staðfesta auglýsingaskilti bæjarins. Vísir

Rís þá í okkur dagur eftir langa nótt, sagði skáldið… Ásýnd miðbæjarins var strax önnur þegar hjólað var til vinnu úr miðbænum og í Laugardal á sjöunda tímanum, þegar tekið var að grána fyrir fyrsta degi nýs pólitísks veruleika á Íslandi að afloknum þingkosningum 2021.

Strætóskýli og skiptiskilti hvers konar báru þess engin merki lengur að hér stæði yfir sú ákafa kosningabarátta sem linnulaust hefur barið á skilningarvitum landsmanna undanfarnar vikur og mánuði.

Í staðinn fyrir hressa stjórnmálamenn, baráttumenn í baráttusætum, gat nú að líta auglýsingar fyrir pítsur, efnisveitur fyrir íþróttaefni, súkkulaði, hraðpróf og kvikmyndahátíðir. Sem sagt, íslensk efnishyggja af hefðbundna toganum og án þess að hér sé tekin afstaða í málinu máttu þessar kynningar bara teljast notalegar í samanburðinum.

Á hefðbundnum plakötum á strætóskýlum stóðu frambjóðendur víða enn keikir enda ekki stafrænar forsendur fyrir öðru. Ef marka má umfjöllun fréttastofu frá því fyrir skemmstu, ættu þeir þó senn að vera á bak og burt enda kostar dagurinn á strætóskýli fleiri hundruð þúsund krónur.

Enn vantar lokatölur úr tveimur kjördæmum þegar þetta er skrifað en þær eru væntanlegar á hverri stundu. Þá fer að taka á sig endanlega mynd sú þingsætaskipting sem bíður landsmanna á nýju kjörtímabili - eða svo áfram sé vísað í skáldskap frá liðinni öld: rís í okkur dagur, undan brotnu innsigli, þegar við höfum tætt í sundur okkar eigin mynd.

Hér er umfjöllun um kostnaðarsamar auglýsingaherferðir flokkanna, ef vera kynni að einhver sé þegar farinn að sakna þeirra: 


Tengdar fréttir

Rándýrt að auglýsa í Reykjavík

Íslenskir stjórnmálaflokkar hafa keypt auglýsingar á Facebook fyrir rúmlega 24 milljónir króna undanfarið ár. Auglýsingar á samfélagsmiðlum eru þó aðeins brotabrot af útgjöldum flokkanna til markaðssetningar.

Senu­­þjófar kosninga­bar­­áttunnar

Nú þegar kosningabaráttan fyrir Alþingiskosningar 2021 fer að nálgast sinn hápunkt er ekki úr vegi að horfa yfir sviðið og reyna að glöggva sig á því hvaða frambjóðandi er sá svarti senuþjófur sem hefur náð að sópa til sín mestu af hinni dýrmætu athygli sem allt snýst um á tímum sem þessum. Þrír einstaklingar teljast ótvíræðir sigurvegarar. En óhætt að segja að þeir hafi farið sitthverja leiðina að því marki.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.