Innlent

Fyrsti valkostur að reyna á núverandi ríkisstjórn

Samúel Karl Ólason skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er hann kaus í morgun.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, er hann kaus í morgun. Vísir/Stína

„Maður er svona aðeins að ná andanum eftir þennan mikla kosningasprett,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir að hann kaus í morgun. „Svo bara vaknaði tilhlökkun í manni.“

Bjarni sagðist ætla að verja deginum í að flakka milli kökuhlaðborða og heilsað upp á fólk sem hefði verið í kosningabaráttunni með Sjálfstæðisflokknum.

Bjarni sagðist vera að vonast eftir meira fylgi en síðustu kannanir hafa gefið til kynna, sem er um 21 til 23 prósent.

„Ég trúi því að við fáum meira fylgi en það og það er það sem við erum að vonast til,“ sagði Bjarni.

Spurður út í fyrsta símtalið á morgun sagði Bjarni að það yrði líklega til foreldra hans.

Þá sagðist Bjarni bjartsýnn um að fá góða niðurstöðu úr þessum kosningum til að tryggja að áherslur Sjálfstæðisflokksins yrðu áfram ráðandi í stjórnarsáttmála.

Bjarni sagði það sinn fyrsta valkost að láta á það reyna að núverandi ríkisstjórn gæti haldið áfram.

„Ég hef verið nokkuð skýr með það að ef þessir þrír flokkar halda góðum meirihluta, eins og sumar kannanir sýna, þá kæmi mér mjög á óvart ef ekki væri áhugi fyrir því að setjast niður og skoða hvað hægt er að gera.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×