Innlent

Ein dýra­tegund að kvelja aðra sjálfri sér til yndis­auka

Jakob Bjarnar skrifar
Henry Alexander telur algerlega ljóst að þeir stangveiðimenn sem stunda veiðiaðferðina veiða/sleppa geta ekki hossað sér fyrir siðferðilega yfirburði.
Henry Alexander telur algerlega ljóst að þeir stangveiðimenn sem stunda veiðiaðferðina veiða/sleppa geta ekki hossað sér fyrir siðferðilega yfirburði.

Henry Alexander Henrysson siðfræðingur, doktor í heimspeki, veltir fyrir sér þeirri spurningu hvort það sé siðferðilega rétt að veiða lax í þeim eina tilgangi að sleppa honum? Og hans niðurstaða er ótvíræð.

„Stangveiðimenn sem sleppa öllum fiski sem þeir landa aftur út í ána geta því ekki gert kröfu um að þeim sé veitt siðferðilegt hrós eða að þeir hljóti viðurkenningu fyrir einhvers konar siðferðilega yfirburði í veiðiheiminum,“ segir Henry Alexander gagnmerku svari á Vísindavefnum. Og ætti þá þetta áralanga þrætuepli að vera til lykta leitt.

Geta ekki skákað í skjóli dyggða

Sigurður Örn og Grétar Eiríksson vörpuðu fram þessari spurningu sem er viðfangsefni siðfræðingsins. En þetta hefur lengi verið umdeilt meðal stangveiðimanna eftir að veiða-sleppa varð viðtekið í laxveiðiám landsins, þá með það fyrir augum að vernda laxastofninn. Þar með er í raun búið að taka út þann þátt veiðanna að þær séu liður í því að afla sér matar og þannig með skírskotun til frumeðlis. Á meðan hafa þeir sem vilja hafa þann háttinn á að vilja setja í lax og sleppa honum aftur til verndunar stofninum verið harðir á því að þeir séu með þessu að leggja sitt að mörkum til verndunar. En nú er búið að kveða uppúr um það: Siðferðilega eru þeir á hálum ís.

Henry Alexander fer ítarlega í saumana á þessu flókna viðfangsefni og segir að hugsanlega sé þessi veiðiaðferð að einhverju leyti skárri en aðrar og hefðbundnari veiðiaðferðir hvað varðar vistfræði og verndun, og má þar til dæmis nefna þá reglu að sleppa öllum stórlaxi. 

„En þegar öllu er á botninn hvolft felst stangveiði í að ein dýrategund er að kvelja aðra sjálfum sér til ánægju og yndisauka.“

Fagurfræðilegar réttlætingar

Vert er að halda því til haga að siðfræðingurinn er ekki að fordæma þá stangveiðimenn sem vilja hafa þann háttinn á þó hann telji þá á hálum ís með að vilja hrósa sjálfum sér fyrir að vera dyggðum prýddir. Kannski þurfi ekki allt það sem við tökum okkur fyrir hendur að vera stutt siðferðilegum rökum.

„Sumt leyfum við okkur ánægjunnar og nautnarinnar vegna, án þess að viðkomandi athöfn sé siðferðilega rétt. Slíkar athafnir eru krydd í tilveruna og er helsta siðferðilega skylda okkar að gæta hófs og valda sem minnstum skaða,“ segir Henry Alexander.

Ástæður fyrir því að sumar slíkar athafnir eru meira aðlaðandi en aðrar geta hins vegar átt sér fagurfræðilegar réttlætingar: „Hógvær fluguveiði þar sem hverjum laxi er sleppt eftir átökin er ótvírætt meira aðlaðandi heldur en aðfarir sem fela í sér blóðgun og plöstun afla. Og hún getur verið til fyrirmyndar í þeim skilningi þótt hún sé ekki endilega siðferðilega rétt fyrir vikið.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×