Fótbolti

Foreldrar Maríu sáu hana spila tímamótalandsleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
María Þórisdóttir í leiknum gegn Armeníu í gær.
María Þórisdóttir í leiknum gegn Armeníu í gær. getty/Martin Rose

María Þórisdóttir, leikmaður Manchester United, lék sinn fimmtugasta landsleik þegar Noregur vann 10-0 sigur á Armeníu í undankeppni HM 2023 í gær.

María var heiðruð fyrir leik og fékk blómvönd. Hún lék allan leikinn í vörn norska liðsins en hefur oft þurft að hafa meira fyrir hlutunum en í gær.

María er dóttir Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta, og Kirsten Gaard sem er norsk. Foreldrar Maríu voru á Ullevaal vellinum í Osló í gær og hún birti skemmtilega mynd af þeim á Twitter í gær.

Það var kannski viðeigandi að María lék sinn fyrsta landsleik gegn Íslandi á Algarve mótinu 2015. Noregur vann leikinn, 1-0.

María lék með norska landsliðinu á HM 2015 og 2019 og EM 2017. Að öllu óbreyttu verður hún svo í norska liðinu á EM á Englandi á næsta ári.

Í landsleikjunum fimmtíu hefur María skorað tvö mörk, gegn Skotlandi í vináttulandsleik 2018 og gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni EM 2019.

Seinni leikur Noregs í þessari landsleikjahrinu er gegn Kósóvó á útivelli á þriðjudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×