Innlent

Faðmaði öspina áður en hún var felld

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ragnhildir Sigurðardóttir er mjög óánægð með ákvörðunina um að fella aspirnar.
Ragnhildir Sigurðardóttir er mjög óánægð með ákvörðunina um að fella aspirnar. Vísir/Magnús Hlynur

Í kvöld hófst vinna við að fella níu aspir við Austurveg á Selfoss í nafni umferðaröryggis. Óánægður bæjarbúi faðmaði eina öspina áður en hún var felld.

Greint var frá því í dag að til stæði að fella níu tignarlegar aspir á Selfossi. Markmiðið með þessu var sagt vera aukið umferðaröryggi. Bæjaryfirvöld væru að bregðast við ábendingu frá lögreglu um að aspirnar skerði vegsýn fyrir ökumenn stórra ökutækja við gangbrautir.

Auk þess var talið að aspirnar sköpuðu hættu fyrir gangandi vegfarendur þar sem þær byrgðu sýn á gangbrautir.

Óánægju hefur gætt með þessa ákvörðun bæjaryfirvalda og voru nokkrir bæjarbúir mættir á staðinn þegar aspirnar voru sagaðar niður. Þar á meðal var Ragnhildur Sigurðardóttir sem ræddi við Sunnlenska á staðnum í kvöld. Hún faðmaði eina öspina eins og sjá má hér fyrir ofan.

„Ég var bara að faðma tréð og þakka því fyrir að vera hérna. Ég er svo sár yfir því að það sé verið að taka þessi tré sem eru búin að þjóna okkur vel, gefa okkur súrefni og skjól og hreinsa óhreinindin frá bílunum. Þau gegna mjög mikilvægu hlutverki,“ sagði Ragnhildur.

Hún segist mjög óánægð með ákvörðunina um að láta fjarlægja aspirnar.

„Ég held að bæjarbúar hafi ekki vitað af þessu, ég frétti þetta bara í morgun og ég er svo hissa, ég á ekki orð. Þannig að ég vildi kveðja tréð og þakka því fyrir, ég er svo ofboðslega mikill náttúruunnandi og ég veit að trén hafa tilfinningar,“ sagði Ragnhildur í samtali við Sunnlenska en lesa má frétt miðilsins um málið hér.

Vinna við að fella aspirnar stóð yfir í kvöld.Vísir/Magnús Hlynur

Sunnlenska ræddi einnig við Björgvin Örn Eggertsson, skógfræðing á Selfossi, sem hefði frekar viljað að tréin yrðu snyrt, ef markmiðið væri að bæta sjónlínu á svæðinu.

„Á sínum tíma, þegar þessi tré voru sett niður, þá virtist hægjast á umferðinni. Ég held að núna þegar við förum að opna þetta þá fáum við aðeins betri sjónarhorn á gangbrautina en ég held að með góðri trjásnyrtingu, og með því að fella kannski eitt til tvö tré, en ekki níu, þá hefðum við náð mjög góðum árangri,“ hefur Sunnlenska eftir Björgvini.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×