Lífið

Fata­hönnuður Ís­lands vandar um við Guð­mund Andra og segir ekki ganga að vera druslu­legur á þinginu

Jakob Bjarnar skrifar
Guðmundur Andri hlaut ákúrur frá flokksmanni, að hann mætti vera snyrtilegri. Fagmaðurinn Dóra Einars telur þetta réttmætar ábendingar, það gangi ekki að vera lummulegur á bol og á klossum þegar menn gegna þingmennsku.
Guðmundur Andri hlaut ákúrur frá flokksmanni, að hann mætti vera snyrtilegri. Fagmaðurinn Dóra Einars telur þetta réttmætar ábendingar, það gangi ekki að vera lummulegur á bol og á klossum þegar menn gegna þingmennsku.

Guðmundur Andri Thorsson, sem nú berst fyrir pólitísku lífi sínu í öðru sæti Samfylkingar í Kraganum, greindi frá raunum sínum í prófkjörsbaráttu, sem varða klæðaburð. Fatahönnuður Íslands, sjálf Dóra Einars, er ekki þeirrar gerðar að vera meðvirk og segir þingmanninum að hysja upp um sig buxurnar.

„Mikill sómamaður og ómetanlegur félagi úr Samfylkingunni, enn á besta aldri en kominn á eftirlaun, kom að máli við mig eftir fund um daginn þar sem ég hafði verið - og sagt nokkur orð - og vildi í vinsemd fara þess á leit við mig að ég væri snyrtilegri til fara. Ég brást furðu illa við, fannst hann vera að tjá sig um það sem honum kæmi ekki við, hlutast til um persónuleg mál.“

Guðmundur Andri er bolamaður

Svo hefst pistill Guðmundar Andra, sem hann birtir á Facebook en klæðaburður þingmanna er sígilt umræðuefni. Guðmundur Andri segist að sönnu ekki annálað skartmenni og komist hann seint á lista yfir best klæddu menn landsins.

„Bolur. Ég gríp einhvern bol, sem mér sýnist vera hreinn, og fer svo að hugsa um eitthvað annað,“ segir Guðmundur Andri. Hann segist nota jakka og skyrtur og jafnvel bindi á þingi. Og maðurinn hafi meint vel en sjálfur sé hann af bolakynslóðinni, þeirri sem innleiddi pönkið og var full af alls konar uppreisnargirni á ótal sviðum, sem breytti samfélaginu í grundvallaratriðum.

„Í mínum huga eru jakkaföt og bindi ekki endilega fyrst fremst tákn virðingar fyrir þeim sem maður talar yfir heldur kannski ekki síður einkennisbúningur valdsins. Í mínum augum er þingmennskan þjónustustarf við almenning. Og við sem sinnum því starfi eigum ekki að vera í sama mótið sett heldur eigum við að koma úr þjóðardjúpinu, hvert með sín sérstöku einkenni.“

Úr klossunum og köflóttu skyrtunni

Ýmsir lýsa sig sammála þessum sjónarmiðum, reyndar eru fjörlegar umræður um klæðaburð á Facebooksíðu þingmannsins en Dóra Einars hönnuður hellir sér yfir Guðmund Andra, af faglegri og móðurlegri umhyggju. Hún segist hafa fylgst með honum í um þrjátíu ár, snyrtilegum og það hafi ekki farið fram hjá henni að hann sé fyrir látlausan klæðaburð. En alheimsreglum þurfi menn að beygja sig fyrir. 

Þegar fólk gerist opinberir starfsmenn í ábyrgðarstöðum láti það af lummulegheitunum; fara úr molskinsbuxum, bolnum, köflóttu skyrtunni og klossunum sem þeim þykir þægilegur klæðnaður.

„Þegar ég vann sem Flugfreyja 1972-74 fór ég þegjandi og hljóðalaust í dragtina, blússuna, setti á mig hatt og slæðu var í háhæluðum skóm með veski og hanska. Það skipaðu mér enginn að gerast flugfreyja og klæða mig samkvæmt reglum! Ég sótti um það sjálf,“ segir Dóra ströng. Og segir að það sama gildi um þá sem starfa á Alþingi Íslands:

„Ef þið viljið ekki fara eftir reglum hvað útlit, snyrtimennsku, mannasiði, borðsiði og klæðnað snertir þá er nóg að öðrum störfum handa ykkur sem þessar kröfur eru ekki gerðar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.