Innlent

Kona hætt komin í bruna við Týsgötu

Heimir Már Pétursson skrifar
Slökkviliði gekk vel að ráða niðurlögum eldsins við Týsgötu og reykræsti kjallaraíbúðina að slökkvistarfi loknu.
Slökkviliði gekk vel að ráða niðurlögum eldsins við Týsgötu og reykræsti kjallaraíbúðina að slökkvistarfi loknu. Stöð 2/Arnar

Kona var flutt á slysadeild eftir að eldur kom upp í kjallaraíbúð við Týsgötu í Reykjavík í dag. Tilviljun réði því að nágranni á næstu hæð var heima og sá reyk leggja frá íbúðinni.

Rétt fyrir klukkan tvö í dag var slökkvilið kallað að húsi við Týsgötu vegna mikils reyks sem lagði frá íbúð í kjallara. Hallgrímur Hallgrímsson varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir nágranna hafða skroppið heim úr vinnu og þá orðið var við reykinn og barið á dyr kjallaraíbúðarinnar þar til kona sem þar býr kom til dyra.

Hallgrímur Hallgrímsson varðstjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.Stöð 2/Arnar

„Þegar við komum á staðinn er nokkuð mikill reykur sem kemur út um glugga sem snýr að Týsgötunni. Einn íbúi var í íbúðinni þegar eldurinn kemur upp en hafði komist út af sjálfsdáðun eftir að fyrrnefndur nágranni hafði bankað á hurðina og gerði vart við sig,“ segir Hallgrímur.

Konan var flutt á slysadeild með reykeitrun en er ekki talin í lífshættu. Slökkviliðsmenn á staðnum vildu minna fólk á að hafa reykskynjara í íbúðum sínum. Þeir geti skipt sköpum milli lífs og dauða en eins og áður sagði var tilviljun að nágranni sem þurfti að skreppa heim úr vinnu sá reykinn.

Talið er að eldurinn hafi komið upp í eldhúsi en þó ekki út frá potti á hellu en eldurinn var lítill sem enginn þegar slökkilið kom á staðinn en mikill reykur.

Og þegar er svona mikill reykur er fólk auðvitað í bráðri lífshættu?

„Já, þetta var þess eðlis að ef hún hefði verið lengur þarna inni hefði hún getað verið í hættu,“ segir Hallgrímur Hallgrímsson.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×