DV greindi fyrst frá málinu í gær en fréttastofa hefur undir höndum myndband sem sýnir lögreglu í baráttu við umræddan mann. Þar liggur karlmaðurinn á jörðinni fyrir utan verslun Lego á 2. hæð verslunarmiðstöðvarinnar og þarf tvo lögreglumenn til að hafa manninn undir.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Kópavogi var óskað eftir aðstoð lögreglu eftir að átök brutust út milli öryggisvarðar í Smáralind og karlmannsins. Í átökunum hafði karlmaðurinn hægðir og ataði saur á öryggisvörðinn.
„Þetta var bara ógeðslegt, það var ástæðan fyrir því að allir fóru á bak við, bara út af lyktinni. Það voru bara slettur út um allt gólfið núna. Þetta var ógeðslegt. Löggan var að þrífa þetta eftir hann, bara vesen,“ sagði starfsmaður í verslun í Smáralind við DV í gær.
Karlmaðurinn gisti fangageymslur í nótt en hann mun hafa verið í annarlegu ástandi þegar atburðurinn átti sér stað. Hann var yfirheyrður í morgun og hefur verið látinn laus.
Hann verður kærður fyrir þjófnað og líkamsárás.