Stjórnendur Geðsþjónustu Landspítalans og sérnámslæknar í geðlækningum hafa undanfarið bent á í fjölmiðlum að húsnæði geðsviðs spítalans sé algjörlega óviðunandi og uppfylli ekki nútíma kröfur. Þá hefur verið gagnrýnt að ekki sé gert ráð fyrir húsnæði undir þjónustuna á nýjum Landspítala.
Í gær kom fram í hádegisfréttum okkar hjá forstöðumanni geðþjónustunnar að húsnæðið sé ekki bara gamalt og úr sér gengið heldur sé afar óhentugt að hafa þjónustuna á þremur stöðum eins og nú er. Mikilvægt sé að byggja nýtt húsnæði sem uppfylli nútímakröfur og styðji við bata sjúklinga. Útilokað sé að bíða eftir því í 10-20 ár.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segist hafa fylgst vel með þessum málum undanfarið.
„Ég hef hlustað mjög vel eftir þessari mikilvægu umræðu um þessa þjónustu. Ég hef því ákveðið að fela NSLH sem er nýr Landspítali sem sér um framkvæmdirnar við Hringbraut að gera úttekt á geðdeildarhúsnæði Landspítalans við Hringbraut, Klepp og víðar. Í framhaldinu verði svo kannaður möguleiki á nýbyggingu fyrir starfsemi geðdeildanna sem hluta af heildaruppbyggingu nýs Landspítala. Það er ekki búið að skipuleggja alla mögulega byggingarreiti á svæðinu við Hringbraut,“ segir Svandís.
Svandís segir að verkefnið þurfi ekki að taka langan tíma.
„Það eru einhverjir mánuðir sem við erum að tala um. Sjálf þarfagreiningin fyrir Landspítalann og framtíðarheilbrigðisþjónustu er 16 vikna verkefni sem er nýlega farið í gang. Þetta á að fara vel saman að rýna ofan í húsnæðiskostinn og framtíðarverkefni varðandi þjónustu Landspítalans,“ segir Svandís.
Aðspurð hvort að ný geðdeildarbygging geti jafnvel risið á næstu árum svarar Svandís:
„Það er ekki útilokað. Það er til byggingarpláss sem gæti mögulega nýst fyrir nýtt geðdeildarhús á Hringbraut,“ segir Svandís.