Innlent

Ráðherra vísar ásökunum Persónuverndar á bug

Árni Sæberg skrifar
Kristján Þór Júlíusson er ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála.
Kristján Þór Júlíusson er ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Vísir/Vilhelm

Kristján Þór Júlísson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir ásakanir Persónuverndar, þess efnis að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hafi leynt upplýsingum eða notað Persónuvernd sem skálkaskjól, hreinan rógburð. 

Forsaga málsins er að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið vann nýlega skýrslu um eignarhald fyrirtækja í sjávarútvegi sem var síðan harðlega gagnrýnd af Persónuvernd í bréfi til ráðuneytissins. Þar segir meðal annars að rangt sé farið með efni laga um persónuvernd í skýrslunni og bent á að upplýsingar um hlutafjáreign séu ekki viðkvæmar persónuupplýsingar.

Þá segir jafnframt að rangt sé farið með úrskurð Persónuverndar um birtingu upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga. Í skýrslunni segir að Persónuvernd hafi úrskurðað um að ársreikningaskrá hafi verið gert að afmá hluthafalista sem fylgt hafa ársreikningum og samstæðureikningum úr þeim reikningum sem skráin varðveitir og veitir aðgang að.

Rétt sé að með ákvörðun Persónuverndar hafi verið lagt fyrir ríkisskattstjóra að „láta af birtingu upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga á opinberum vef embættisins.“

Unnið hafi verið í gagnsæju ferli

Krisján Þór segir skýrsluna hafa verið unna í samstarfi við Skattinn og að unnið hafi verið í opnu gagnsæju ferli milli stjórnkerfisins og Alþingis.

„Það er ófaglegt og óviðeigandi af Persónuvernd að saka ráðuneytið, sem gefið hefur skýringar á forsendum upplýsinga sem veittar voru Alþingi, um að leyna upplýsingum eða nota Persónuvernd sem skálkaskjól. Þessu er því alfarið vísað á bug sem hreinum rógburði,“ segir ráðherrann.

Kristján Þór segir ráðuneytið taka lagaskyldu sína til að sinna upplýsingagjöf til Alþingis alvarlega. Þá segir hann engu hafa verið leynt um forsendur og aðferðir við undirbúning skýrslunnar.

„Ef önnur lagatúlkun en sú sem Skatturinn hefur stuðst við getur opnað fyrir frekari upplýsingar frá Skattinum er fullur vilji hjá ráðuneytinu til þess að láta taka þær saman,“ segir hann.

Boðar fulltrúa Skattsins og Persónuverndar á sinn fund

„Ég hef óskað eftir að ráðuneytið boði fulltrúa Skattsins og Persónuverndar til fundar til að fara nánar yfir þessi atriði og ákveða næstu skref. Þau verða tekin af fagmennsku og virðingu fyrir þeim reglum sem um efnið gilda. Hér eftir sem hingað til,“ segir Kristján Þór í lokaorðum Facebookfærslu um málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×