Innlent

Tóku skóflu­stungu að rann­sókna­húsi Nýs Land­spítala

Atli Ísleifsson skrifar
Unnur Brá Konráðsdóttir, Páll Matthíasson og Svandís Svavarsdóttir með skóflurnar. Dagur B. Eggertsson stendur fyrir aftan þau og festir viðburðinn á filmu.
Unnur Brá Konráðsdóttir, Páll Matthíasson og Svandís Svavarsdóttir með skóflurnar. Dagur B. Eggertsson stendur fyrir aftan þau og festir viðburðinn á filmu. Aðsend/Eva Björk

Fyrstu skóflustungurnar að nýju rannsóknahúsi Landspítala við Hringbraut voru teknar um klukkan 14 í dag. Stefnt er að því að nýtt rannsóknahús verði tekið í notkun 2026.

Það voru Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður stýrihóps Landspítala og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sem munduðu skóflurnar.

Í tilkynningu frá Nýjum Landspítala segir að nýtt rannsóknahús muni rísa vestan Læknagarðs HÍ og verða 17.400 fermetrar að stærð. Verður húsið fjórar hæðir ásamt kjallara, tæknisvæði á fimmtu hæð og hugmyndir eru einnig um möguleika á þyrlupalli.

Húsið verður 17.400 fermetrar að stærð.Nýr Landspítali

Blóðbankinn fer í bygginguna

„Í rannsóknahúsi hins nýja spítala sameinast öll rannsóknastarfsemi spítalans á einn stað.

Starfseiningar í rannsóknahúsi verða lífsýnasafn, meinafræði, rannsóknakjarni, klínísk lífefnafræði og blóðmeinafræði, frumuræktunarkjarni, frumumeðhöndlun, erfða- og sameindalæknisfræði, ónæmisfræði og sýkla- og veirufræði. 

Starfsemi Blóðbanka mun einnig flytjast í bygginguna. Í tengslum við meinafræðieiningu verður líkhús og krufning og aðstaða fyrir réttarmeinafræði. Rannsóknahúsið tengist meðferðakjarna og öðrum byggingum spítalans með sérstöku rörpóstkerfi og göngum neðanjarðar.

Rannsóknahúsið mun rísa vestan Læknagarðs.Nýr Landspítali

 Með því munu deildir spítalans geta sent sýni til rannsókna í rannsóknahús á örfáum mínútum. Hönnunarhópurinn Corpus eru aðalhönnuðir hússins að honum standa níu innlend og erlend hönnunarfyrirtæki. Aðaluppdrættir hússins liggja nú þegar fyrir og lok hönnunar eru á næsta ári,“ segir um húsið.

Aðsend/Eva Björk
Aðsend/Eva Björk


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.