Innlent

Ganga ó­bundin til kosninga en myndu skoða á­fram­haldandi sam­starf fyrst

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Formennirnir þrír virðast sammála um að skoða möguleikann á áframhaldandi samstarfi, falli atkvæði á þann veg að ríkisstjórnin haldi velli.
Formennirnir þrír virðast sammála um að skoða möguleikann á áframhaldandi samstarfi, falli atkvæði á þann veg að ríkisstjórnin haldi velli. Vísir/Vilhelm

Formenn ríkisstjórnarflokkanna þriggja, Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, segjast allir ganga óbundnir til kosninga. Þeir eru þó sammála um að eðlilegt væri að ræða möguleikann á áframhaldandi stjórnarsamstarfi, fari svo að ríkisstjórnin haldi velli í komandi þingkosningum.

Þetta kom fram í kappræðum flokkanna sem í framboði eru til Alþingis, sem fram fóru á RÚV nú í kvöld. Þar voru formennirnir þrír spurðir út í þau orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, að það væri óopinbert leyndarmál að stjórnarflokkarnir þrír væru í kosningabandalagi.

„Það er alls ekki rétt, og ekki verið rætt af neinni alvöru á nokkrum tímapunkti,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra. Hann sagðist þó þeirrar skoðunar að það væri einkennilegt ef ríkisstjórnin héldi meirihluta en settist ekki niður og léti á það reyna hvort hún gæti náð saman.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG og forsætisráðherra, benti á að ríkisstjórnin væri sú fyrsta sem skipuð væri þremur flokkum og hefði klárað heilt kjörtímabil. Hún sagði ríkisstjórnina hafa notið stuðnings almennings í gegnum allt kjörtímabilið. Stuðnings sem væri meiri en stuðningur við flokkana hvern í sínu lagi. Það teldi hún til marks um að ríkisstjórnin sé á réttri leið. VG myndi þó ganga til kosninga á grundvelli málefnastöðu flokksins.

„Ef við höldum meirihluta, þá er að sjálfsögðu eðlilegt að við tölum saman en við göngum, eins og ég segi, algjörlega óbundin til kosninga og horfum bara á það hvaða málefnalega árangri við getum náð fyrir Ísland á næsta kjörtímabili,“ sagði Katrín.

Undir þetta tók Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra og formaður Framsóknarflokksins. Það væri ekkert launungarmál að hans flokkur væri ánægður með ríkisstjórnarsamstarfið, sem hann sagði hafa gengið vel.

„Ef ríkisstjórnin heldur velli, þá væri það eitthvað skrýtið ef við myndum ekki hefja samtalið þar. En við göngum óbundin til kosninga,“ sagði Sigurður Ingi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.