Innlent

Flókið að mynda aðra ríkisstjórn en þá sem nú er við völd

Heimir Már Pétursson skrifar
Ríkisstjórnin heldur velli, samkvæmt könnuninni.
Ríkisstjórnin heldur velli, samkvæmt könnuninni. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin héldi naumlega velli með minnsta mögulega þingmeirihluta samkvæmt könnun MMR fyrir Morgunblaðið sem blaðið birtir í dag. Flókið yrði að mynda aðrar ríkisstjórnir en nú er við völd.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 23,9 prósent atkvæða og sautján þingmenn, Framsóknarflokkurinn 12,5 prósent og átta þingmenn og Vinstri græn 10,9 prósent og sjö þingmenn eða samanlagt 32 þingmenn, sem er lágmarks meirihluti á Alþingi. 

Ekki væri hægt að mynda þá ríkisstjórn sem reynt var að mynda með Vinstri grænum, Samfylkingu, Framsóknarflokki og Pírötum eftir síðustu kosningar. 

Slík stjórn hefði aðeins tuttugu og átta þingmenn á bakvið sig. Hún þyrfti því annað hvort á sex þingmönnum Viðreisnar eða fimm þingmönnum Sósíalistaflokksins að halda til að mynda annars vegar 34 þingmanna meirihluta eða hins vegar 33 manna meirihluta.

Samfylkingin fengi ekki þingmenn í öllum kjördæmum. Hún fengi hins vegar tvo í Norðausturkjördæmi, kjördæmi Loga Einarssonar formanns flokksins, en engan í Suðurlandskjördæmi. 

Það sama á við um Viðreisn. Flokkurinn fengi tvo þingmenn í Suðvesturkjördæmi, kjördæmi Þorgerðar Katrínar formanns flokksins og tvo í Reykjavík norður, kjördæmi Daða Más Kristóferssonar varaformanns flokksins, en enga þingmenn í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi.

Fylgi flokkanna mælist annars svona í könnun MMR fyrir Morgunblaðið:

  • Sjálfstæðisflokkur 23,9 prósent - 17 þingmenn
  • Framsóknarflokkur - 12,5 prósent - 8 þingmenn
  • Vinstri græn - 10,9 prósent - 7 þingmenn
  • Samfylking - 10,5 prósent - 6 þingmenn
  • Viðreisn - 10,4 prósent - 6 þingmenn
  • Píratar - 10,6 prósent - 7 þingmenn
  • Sósíalistaflokkurinn - 8,7 prósent - 5 þingmenn
  • Miðflokkurinn - 6,2 prósent - 4 þingmenn
  • Flokkur fólksins - 5,1 prósent - 3 þingmenn

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×