Innlent

Vonar að 500 fái að koma saman og hrað­próf komi í stað fjar­lægðar­tak­markana

Birgir Olgeirsson skrifar
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri.
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri. Vísir/Baldur

Ríkisstjórnin fundar á morgun um næstu aðgerðir í baráttunni við faraldurinn en sviðslistafólk hefur verið í samtali við yfirvöld um næstu skref. 

Magnús Geir Þórðarson, þjóðleikhússtjóri er forsvarsmaður sviðslistastofnana sem hafa átt í samtali við yfirvöld. 

200 manns mega koma saman í dag og er grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð milli ótengdra aðila. 

„Við í menningarlífinu erum að vona innilega að það verði hægt að slaka á takmörkunum þannig að það verði auðveldara fyrir fólk að sækja menningarviðburði og sækja sér andlega næringu í menningarhúsin. Þar erum við auðvitað að horfa til að bæði verði hægt að taka á móti fleiri gestum í sal en slaka svolítið á fjarlægðarmörkum og öðrum takmörkunum sem eru í gildi,“ segir Magnús Geir. 

Hvernig væri hægt að slaka á fjarlægðarmörkum?

„Eins og þetta er gert í mörgum löndum og flestum löndum í kringum okkur þá eru minni fjarlægðartakmarkanir og jafnvel engar. Þá koma hraðprófin stundum þar inn á móti, þannig að fólk staðfestir að það sé með nýlegt hraðpróf sem það hefur sótt sér með aðgengilegum og auðveldum hætti og á móti er slakað á þessum nálægðarmörkum,“ segir Magnús Geir. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til í langtímaminnisblaði sínu að stærri viðburðir geti farið fram gegn því að gestir sýni fram á neikvætt hraðpróf. Bæði hann og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafa sagt í vikunni að tilefni sé til að slaka á því faraldurinn sé á niðurleið og ástandið stöðugt á Landspítalanum. 

Magnús Geir vonast eftir að hægt verði, núna eða fljótlega, að hækka fjöldatakmarkið úr tvö hundruð upp í fimm hundruð. 

„Og þannig verði komið eðlilegt umhverfi sem fyrst fyrir viðburðahald og menningarlífið. Það myndi breyta gríðarlega miklu og við finnum að fólk þyrstir í að mæta og koma til okkar. Við erum tilbúin og vonandi verður það hægt og að sjálfsögðu með mjög ábyrgu og yfirveguðu samkomuhaldi eins og verið hefur,“ segir Magnús Geir.


Tengdar fréttir

Sammála því að tilefni sé til að slaka á

Heilbrigðisráðherra er sammála sóttvarnalækni um að tilefni sé til að slaka á sóttvarnareglum. Sóttvarnalæknir hafi verið samstíga henni að heimila notkun sjálfsprófa, þótt hann mælti ekki með því.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.