Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá svæðið efst á Gunnólfsvíkurfjalli í kringum ratsjárstöð NATO. Það er skilgreint sem öryggissvæði en Landhelgisgæslan annast núna rekstur stöðvarinnar.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynnti í samráðsgátt stjórnvalda í vetur frumvarp um að öryggisvæðið yrði útvíkkað þannig að það næði einnig yfir Gunnólfsvíkina. Vísaði hann til hagsmuna og skuldbindinga Íslands gagnvart norðurslóðum.

Í frumvarpsdrögum telur ráðherrann upp viðlegukant, þyrlupalla, þyrluflugskýli, eldsneytisbirgðastöð, varahlutageymslur og þess háttar en tekur sérstaklega fram að engin áform séu um byggingu varnarmannvirkja á svæðinu.
„Ísland er skuldbundið að einhverju leyti að taka að sér björgun og leit á norðurskautssvæðinu og þá er þetta náttúrlega ákjósanlegur staður að mínu viti,“ segir Jónas Egilsson, sveitarstjóri Langanesbyggðar.
Það hefur lengi verið vitað að ráðamenn í Washington hafa áhuga á að fá sérstaka flotahöfn á norðurslóðum. En er Gunnólfsvík staðurinn?

Úr röðum stjórnarandstæðinga á Alþingi og í umsögn samtaka hernaðarandstæðinga hafa áformin í Gunnólfsvík verið tortryggð og ýjað að því að verið sé að horfa til herskipahafnar. En óttast sveitarstjórinn að þetta geti orðið viðkvæmt og eldheitt mál ef það snertir öryggishagsmuni NATO?
„Nei, þetta yrði fyrst og fremst öryggis- og leitarhöfn. Ég held að þetta hafi ekkert með hernað sem slíkan að gera og eigi ekkert að gera það.
Mér finnst að við eigum að horfa bara á staðreyndir. Siglingar um norðurhöfin eru að aukast alveg gífurlega mikið og fyrr eða síðar þá verður óhapp hérna af einhverju tagi. Þá er mikilvægt að við séum undir það búnir að koma sem fyrst á staðinn með björgunarbúnað,“ svarar Jónas Egilsson.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Fyrir áratug létu ráðamenn Langanesbyggðar gera bækling um Gunnólfsvík á kínversku og fengu sendiherra Kína í heimsókn, eins og fram kom í þessari frétt Stöðvar 2 árið 2011:
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var sagt að utanríkisráðherra hefði farið með bandaríska sendiherrann upp á Gunnólfsvíkurfjall. Það er rangt. Hið rétt er að um borð var utanríkisráðherra ásamt sendiherra Íslands í Berlín samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu.