Innlent

Fann kyn­lífs­dúkku eina síns liðs og eig­andinn ó­fundinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Dúkkan fannst ein síns liðs í austurborg Reykjavíkur. Hún var líklega ekki ósvipuð þessari á myndinni.
Dúkkan fannst ein síns liðs í austurborg Reykjavíkur. Hún var líklega ekki ósvipuð þessari á myndinni. Getty/Ruaridh Connellan

Athugull Reykvíkingur sem var á heilsubótargöngu í austurborginni á dögunum hringdi í lögreglu eftir að torkennilegur hlutur varð á vegi hans. Í ljós kom, þegar lögreglumenn bar að garði, að um kynlífsdúkku var að ræða.

Þetta segir í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar og þar tekið fram að eigandi dúkkunnar er enn ófundinn.

Athugulli borgarinn sá dúkkuna í gróðurlendi við göngustíg á fjölfarinni leið en virtist ekki viss um hvaða skrítni hlutur væri þarna á ferð.

„Ætla má að borgarinn hafi talið það ráðlegra að lögreglan myndi taka hlutinn til nánari skoðunar, frekar en að hann gerði það sjálfur enda aldrei að vita hvaða hættur kunna að leynast þegar torkennilegir hlutir eru annars vegar,“ segir í færslunni.

Tveir lögreglumenn héldu af stað með upplýsingar borgarans í farteskinu til leitar að torkennilega hlutnum.

„En segja má að á þá hafi runnið tvær grímur þegar á vettvang var komið. Ágætlega gekk að koma auga á hlutinn í gróðrinum, en það þurfti að fara varlega upp að honum til að ganga úr skugga um hvað hér var á ferðinni.“

Í ljós kom að þarna væri kynlífsdúkka í fullri stærð, sem án efa saknar eiganda síns.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×