Lífið

Kyli­e Jenner setur á markað eigið sund­fata­­merki

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Kylie Jenner hyggst víkka út veldið sitt með sundfatamerki.
Kylie Jenner hyggst víkka út veldið sitt með sundfatamerki. Getty/John Shearer

Athafnakonan og raunveruleikastjarnan Kylie Jenner er að fara að setja á markað sundföt undir vörumerkinu Kylie Swim. Hún deildi tíðindunum með fylgjendum sínum á Instagram í gær.

Orðrómur um sundfatamerkið fór af stað fyrr á árinu þegar fregnir bárust af því að Jenner hefði sótt um leyfi fyrir vörumerkinu Kylie Swim. Hún staðfesti orðróminn í gær þegar hún birti myndir af sér á Instagram í sundfötum og merkti Instagram reikninginn @kylieswim.

„Er að vinna í @kylieswim og get ekki beðið eftir því að deila,“ skrifaði Jenner undir mynd af sér íklæddri sundfötum sem ætla má að séu úr væntanlegri línu.

Á Instagram-reikningi Kylie Swim stendur „Coming soon...“ og má því ætla að merkið sé væntanlegt von bráðar.

Þrátt fyrir að Instagram reikningur merkisins sé að öðru leyti tómur, er hann strax kominn með 133 þúsund fylgjendur og má því ætla að margir bíði í eftirvæntingu eftir merkinu.

Hér má sjá sundföt sem ætla má að séu úr væntanlegri sundfatalínu Kylie Jenner.Skjáskot

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Jenner skapað sér nafn sem viðskiptamógull. Hún kom sér á kortið með snyrtivörumerki sínu Kylie Cosmetics sem hún stofnaði aðeins sautján ára gömul.

Árið 2019 gaf hún svo vörumerkið Kylie Skin. Þá hefur hún einnig fengið leyfi fyrir vörumerkinu Kylie Baby en nýlega deildi hún þeim fregnum að vörumerki væri væntanlegt frá þriggja ára gamalli dóttur hennar, Stormi.

Jenner er í dag metin á 700 milljónir Bandaríkjadollara.

Með sundfatamerkinu fetar Jenner í fótspor eldri systur sinnar Kim Kardashian sem hefur gefið út sundföt undir undirfatamerki sínu Skims.

Jenner sá til þess að aðdáendur fylltust eftirvæntingu, en 133 þúsund manns fylgjast nú með Instagram síðu merkisins.Skjáskot





Fleiri fréttir

Sjá meira


×