Lífið

Bríet frestar stórtónleikunum

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Söngkonan Bríet hefur frestað útgáfutónleikum sínum þangað til í október.
Söngkonan Bríet hefur frestað útgáfutónleikum sínum þangað til í október.

Söngkonan Bríet hefur frestað útgáfutónleikum sem stóð til að halda þann 11. september næstkomandi í Eldborgarsal Hörpu. Tónleikarnir verða í stað haldnir þann 22. október.

„Jæja fallega fólk, nú er ég með áríðandi tilkynningu. Það er búið að færa tónleikana til 22. október,“ segir Bríet í myndskeiði sem hún birti á Instagram-síðu sinni fyrr í dag.

Aðdáendur þurfa þó ekki að örvænta, því söngkonan segir að þeir miðar sem þegar hafi verið keyptir færist yfir á nýju dagsetninguna. Þá geti þeir sem vilji fengið endurgreitt.

„En þið viljið ekki missa af þessu samt, ég ætla bara að segja ykkur það. Þetta er að fara vera epískt.“

Um er að ræða útgáfutónleika vegna plötu hennar Kveðja, Bríet sem kom út í október á síðasta ári. Sökum heimsfaraldursins hélt hún enga hefðbundna útgáfutónleika þá og eftirvæntingin eftir tónleikunum því mikil - bæði hjá aðdáendum en ekki síst henni sjálfri.

„Ég er svo spennt að ég gæti fallið í yfirlið!“ sagði Bríet í tilkynningu vegna tónleikanna.

Öllu verður tjaldað til og mun listamaðurinn Krassasig sjá um listræna stjórnun og tryggja að tónleikarnir verði einstök upplifun.

Hér að neðan má sjá Bríeti flytja lagið Hann er ekki þú í þættinum Vikan með Gísla Marteini sem sýndur er á Rúv. Atriðið var unnið í samstarfi við Krassasig.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.