Sypavin greinir frá þessu í færslu á vef Explorers Web, þar sem hann reynir að varpa ljósi á það hvað varð til þess að John Snorri, liðsfélagi hans Ali Sadpari og fjallgöngumaðurinn Juan Pablo Mohr létust á K2, næsthæsta fjalli heims, í febrúar. Hann segir að svara þurfi þeirri spurningu hvort að John Snorri og félagar hafi komist upp á topp K2 eða ekki, auk þess sem að varpa þurfi á ljósi hvað hafi gerst á niðurleiðinni. Segir Sypavin að augljóst sé að þeir hafi verið á niðurleið.
Í færslunni segist hann hafa klifrað upp að líkum Johns Snorra, Sadpari og Mohr til þess að reyna að finna svör við þessum spurningum. Segir Sypavin að John Snorri hafi verið tengdur við líflínu sem hafi verið fest við fastalínu sem hafi verið komið fyrir á leiðinni upp tindinn.
Á leiðinni niður hafi fasta línan flækst í snjóakkeri og myndað lykkju, sem hafi orðið til þess að John Snorri sat fastur.
Telur Sypavin líklegt að John Snorri hafi annað hvort ekki áttað sig á þessu, eða að hann hafi ekki haft þrek til þess að koma sér út úr aðstæðunum, enda hafi hann þurft að klifra upp um þrjá metra með því að nota tærnar á ísbroddum sínum, sem hefði reynst afar erfitt.
Sjálfur spyr Sypavin sig hvort að þeir hafi náð toppi fjallsins. Hann virðist þó ekki hafa svarið við þeirri spurningu en ljóst sé að mögulega geti ljósmyndir og myndbönd sem leynist í búnaði sem endurheimtur hafi verið, geti varpað ljósi á það.