Lífið

Bryan Adams myndar Pirellidagatalið 2022

Árni Sæberg skrifar
Kanadíski söngvarinn hefur stundað ljósmyndun í rúman áratug.
Kanadíski söngvarinn hefur stundað ljósmyndun í rúman áratug. Bryan Adams/Pirelli

Tónlistarmaðurinn Bryan Adams mun sjá Pirellidagatalinu fyrir árið 2022 fyrir ljósmyndum. Adams hefur verið ljósmyndari í rúman áratug og er þetta stærsta verkefnið hans hingað til

Margir af virtustu ljósmyndurum sögunnar hafa myndað dagatalið, þeirra á meðal eru Annie Leibovitz, Mario Testino og Richard Avedon.

Dagatalið, sem framleitt er af ítalska dekkjaframleiðandanum Pirelli, var þangað til nýlega dæmigert verkstæðadagatal sem innihélt myndir af fáklæddum konum í kynferðislegum stellingum.

Nýlega hefur fyrirtækið skipt um áherslu og inniheldur dagatalið nú listrænar ljósmyndir af konum. Bryan Adams er þaulvanur ljósmyndun af því tagi. Hann hefur til að mynda ljósmyndað Amy Winehouse og Elísabetu aðra Bretlandsdrottningu með afar smekklegum hætti.

Adams tilkynnti ráðninguna með raddupptöku sem hann birti á Instagramsíðu sinni. „Ég er stoltur að afhjúpa loksins að ég er ljósmyndari Pirellidagatalsins árið 2022,“ segir hann  í færslunni.

Adams gefur ekkert upp um hvert þema dagatalsins verður eða hvaða fyrirsætur munu sitja fyrir. Hann segist munu birta frekari upplýsingar um verkefnið þegar líður á sumarið. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×