Bíó og sjónvarp

Fá meira en hundrað milljarða fyrir fjórtán kvikmyndir og sex þáttaraðir

Samúel Karl Ólason skrifar
Trey Parker og Matt Stone.
Trey Parker og Matt Stone. Getty/Araya Doheny

Matt Stone og Trey Parker hafa gert samkomulag um að fá 900 milljónir dala frá ViacomCBS Inc. á næstu sex árum. Í staðinn þurfa þeir að gera sex nýjar þáttaraðir af teiknimyndaþáttunum South Park og fjórtán kvikmyndir um íbúa bæjarins vinsæla.

Gróflega reiknað samsvara 900 milljónir dala um 112,4 milljörðum króna.

Samkvæmt frétt Bloomberg á áfram að sýna þættina á Comedy Central en kvikmyndirnar verða sýndar á Paramount+, streymisveitu fyrirtækisins. Fyrsta verkefnið verður kvikmynd um South Park en hana á að frumsýna fyrir árslok, auk annarrar kvikmyndar.

Bloomberg segir að samhliða aukinni samkeppni streymisveita heimsins hafi virði vinsælla söguheima eins og South Park aukist gífurlega.

Fyrsti South Park þátturinn var sýndur árið 1997 og hafa þættirnir notið mikilla vinsælda síðan þá. Þættirnir eru þeir vinsælustu hjá Comedy Central. Þetta nýja samkomulag felur í sér að þáttaraðir South Park verða minnst þrjátíu talsins.

„Comedy Central hefur verið heimili okkar í 25 ár og við erum mjög ánægðir með að þeir hafi samþykkt að hýsa okkur næstu 75 ár,“ segir í yfirlýsingu frá Parker og Stone sem birt var á vef þeirra í dag.

Fyrsta og eina kvikmyndin um South Park var frumsýnd árið 1999.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.