Innlent

„Það er náttúrulega verslunarmannahelgi og maður á að hafa það örlítið gaman“

Árni Sæberg og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Steinunn Bjarnardóttir er umsjónarmaður tjaldsvæðisins í Reykholti.
Steinunn Bjarnardóttir er umsjónarmaður tjaldsvæðisins í Reykholti. Magnús Hlynur

Gestir tjaldsvæða halda nú heim á leið eftir vel heppnaða verslunarmannahelgi. Þetta segir umsjónarmaður tjaldsvæðis á Suðurlandi sem kveðst ánægður með helgina. Rólegra var á tjaldsvæðinu Hömrum á Akureyri í gær en dagana á undan.

Flestir gestir tjaldsvæða eru nú að pakka saman og leggja af stað heim eftir verslunarmannahelgina. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir virðast Íslendingar hafa verið á faraldsfæti um helgina og skemmt sér vel um land allt. 

Tjaldsvæðinu í Reykholti í Bláskógabyggð var skipt upp í þrjú sóttvarnarhólf um helgina og voru öll hólf full. Steinunn Bjarnardóttir, umsjónarmaður tjaldsvæðisins segir að helgin hafi gengið vonum framar.

„Helgin gekk alveg frábærlega vel hérna. Við vorum með alveg frábæra gesti og hér var allt í ró og spekt,“ segir Steinunn.

Þó má heyra á Steinunni að engum hafi leiðst á tjaldsvæðinu um helgina. „Allir rólegir en það er náttúrulega verslunarmannahelgi og maður á að hafa það örlítið gaman,“ segir hún.

Þurftu að henda fólki af tjaldsvæðinu fyrr um helgina

Það var einnig rólegt á tjaldsvæðinu Hömrum á Akureyri í gær ólíkt því sem var dagana á undan þegar tjaldverðir þurftu að hafa afskipti af gestum sem virtu ekki næturfrið og reyndu að smygla sér inn á fullt tjaldsvæðið.

„Það var gæsla eins og venjulega en það var enginn hávaði og engin læti,“ segir Valtýr Steinar Hreiðarsson, tjaldvörður á Hömrum.

Þó segir hann að nokkuð hafi verið um að fólk hafi komið á tjaldsvæðið á föstudag og laugardag með það í huga að djamma fram á rauða nótt. Hamrar er fjölskyldutjaldsvæði og því var það ekki liðið.

„Við fengum alveg slatta af því. Hentum út tugum af fólki og þetta var erfitt allavega á föstudaginn og laugardaginn en eftir það var allt gott,“ segir Valtýr.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×