Innlent

„Ég held að þetta snúist fyrst og fremst um fræðslu“

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Brynja Dan Gunnarsdóttir segir forvarnir og fræðslu skipta sköpum.
Brynja Dan Gunnarsdóttir segir forvarnir og fræðslu skipta sköpum. Sigurjón ólason

Ný lög í Noregi sem skylda áhrifavalda til að merkja myndir sem búið er að eiga við eru skrýtin að mati áhrifavalds. Hún segir rökréttara að fræða ungt fólk um skaðsemi samfélagsmiðla og veltir því fyrir sér hvers vegna lögin taki einungis til áhrifavalda.

Lög sem skylda áhrifavalda á samfélagsmiðlum til þess að merkja myndir sem búið er að eiga við, hafa verið samþykkt í Noregi. Lögin varða myndir eða myndskeið þar sem búið er að eiga við líkama fólks, stærð hans eða áferð.

Áhrifavaldur furðar sig á lagasetningunni.

„Mér finnst verið að byrja á röngum enda. Ég hefði viljað sjá stefnuna fara út í forvarnir og fræða börnin okkar um skaðsemi þess að bera okkur saman við aðra og hvað samfélagsmiðlar sem og aðrar auglýsingar geta haft,“ sagði Brynja Dan Gunnarsdóttir, áhrifavaldur.

Lögin eru hugsuð til að vernda ungt fólk fyrir sálrænum skaða sem óraunhæfar glansmyndir á internetinu kunni að valda.

„Mér finnst við alveg þurfa að gera eitthvað, vissulega ef þetta er farið að hafa þessi skaðlegu áhrif sem rannsóknir sýna, en þá finnst mér að þetta eigi bara að ná yfir allar auglýsingar. Hvort sem það er í blöðum, tímaritum, sjónvarpinu eða hvað sem er.“

Óraunhæfar glansmyndir birtist víða

Því áhrifavaldar séu ekki einir um að vinna myndir.

„Þetta er bara það sem hefur tíðkast í auglýsingabransanum í mörg mörg, mörg ár. Það er enginn ljósmyndari sem skilar af sér mynd án þess að hún sé unnin.“

Þá finnst henni sérstakt að lögin taki einungis til áhrifavalda þar sem óraunhæfar glansmyndir birtist víðar. Tekur hún son sinn sem dæmi sem er ekki á samfélagsmiðlum vegna ungs aldurs.

„Ég ræð því ekki hvort hann horfi á Pepsi flöskuna með Ronaldo sem er iðulega með mjög grófa húð en er silkisléttur eins og Ken á flöskunni þannig að ég held að þetta snúist fyrst og fremst um fræðslu.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.