Innlent

Mis­vísandi skila­boð frá ferða­þjónustunni valda furðu

Jakob Bjarnar skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sagði um síðustu helgi að rauður litur myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir greinina og þjóðarbúið allt en í dag skiptir þetta litakóðunarkerfi litlu sem engu máli.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sagði um síðustu helgi að rauður litur myndi hafa skelfilegar afleiðingar fyrir greinina og þjóðarbúið allt en í dag skiptir þetta litakóðunarkerfi litlu sem engu máli. Vísir/Egill

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, taldi fyrir fáeinum dögum það öllu skipta að Ísland yrði ekki rautt en nú er skiptir það engu máli.

Í frétt Morgunblaðsins frá í dag segir Bjarnheiður Bandaríkjamenn ekki spá mikið í þetta litakóðunarkerfi og í að í Evrópu sé vægi þess að minnka. „Það get­ur verið mis­jafnt milli landa en ég er ekki viss um að það breyti miklu hvort við séum app­el­sínu­gul eða rauð, svo eru ein­stak­ling­ar mis­jafn­lega innstilltir á þetta,“ seg­ir Bjarn­heiður í samtali við Morgunblaðið. Hún telur litinn ekki breyta miklu.

Eins og Vísir greindi frá í morgun hefur Ísland nú verið skilgreint sem appelsínugult á nýútgefnu korti Sóttvarnarstofnunar Evrópu. Kortið byggir á gögnum sem safnað er vikuna áður og sýnir í litum hvernig staða landa í Evrópu er að teknu tilliti til kórónuveriufaraldursins. 

Appelsínuguli liturinn þýðir annað hvort að nýgengið sé undir 50 en hlutfall jákvæðra sé yfir 4 prósent eða þá að nýgengið sé á bilinu 25 til 150 og hlutfall jákvæðra sýna undi 4 prósentu. Ljósgrátt þýðir síðan að löndin eru ekki með í tölfræðinni.

Í samtali við RÚV um helgina var allt annað hljóð í Bjarnheiði. Þá sagði hún að það myndi hafa svakalegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna ef Ísland yrði rautt á þessu sama korti. „Aðalmálið núna hvað þetta varðar er að halda landinu grænu þannig að við verðum ekki rauð. Þar verður þjóðin að leggjast á eitt við að halda niðri smitum til þess að það gerist ekki því það myndi hafa svakalegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna og þjóðarbúið í heild sinni,“ segir Bjarnheiður.

Eiríkur Rögnvaldsson prófessor emerítus bendir á þetta á sinni Facebooksíðu og telur þetta meinlegt. „Það er svolítið erfitt að henda reiður á málflutningi talsmanna ferðaþjónustunnar,“ segir Eiríkur og bendir á þetta misræmi. „Lái mér hver sem vill að mér gangi illa að samræma þetta.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.