Ríkisstjórnin ræddi tillögur sóttvarnalæknir á löngum ríkisstjórnarfundi á Egilsstöðum í dag, þar sem ákveðið var að setja á 200 manna samkomubann, eins metra fjarlægðarreglu og skerða opnunartíma veitinga- og skemmtistaða.
„Það sem er verið að leggja til núna er varúðarráðstöfun. Við sjáum vöxt í smitum hjá bólusettu fólki, Það er dálítið óvænt að bólusett fólk sé að smitast og smita aðra,“ sagði Bjarni Benediktsson að loknum fundi en viðtal við hann má sjá í spilarnum hér að neðan.
Aðspurður að því hvort óánægja væri með þessar aðgerðir innan raða flokksmanna Bjarna svaraði Bjarni því neitandi.
„Nei. Ég held að það sé bara rétt að koma því skýrt á framfæri að við ræðum allar hliðar mála. Við tökum inn sjónarmið sem við teljum að eigi erindi inn í umræðuna. Með því erum við ekkert að grafa undan tillögum eða varpa rýrð á mikilvægi þess að fara varlega,“ sagði Bjarni.
Hann segir ríkisstjórnina taka mark á rökum sóttvarnalæknis.
„Það er bara einfaldlega þannig að við lögðum upp með ákveðið plan sem var að opna fyrir frelsið þegar við værum búin að bólusetja. Ef að þá að gera einhverjar breytingar á því plani þurfa að liggja fyrir mjög sterk rök. Þau eru komin fram að hálfu sóttvarnayfirvalda með vísan í vöxt smita og óvissu með það hversu greiða leið þau smit eiga inn í viðkvæma hópa. Við tökum mark á því núna. “