Innlent

Mánaðar­laun þing­manna komin upp í tæp­lega 1,3 milljón króna

Jakob Bjarnar skrifar
Þingmenn lepja ekki dauðann úr skel. Fjölmiðlamenn sem sjá má í baksviði þessarar ljósmyndar eru varla hálfdrættingar á við þá.
Þingmenn lepja ekki dauðann úr skel. Fjölmiðlamenn sem sjá má í baksviði þessarar ljósmyndar eru varla hálfdrættingar á við þá. vísir/vilhelm

Laun þingmanna hækka enn og hafa hækkað um 16,7 prósent frá árinu 2016 en þá höfðu þau verið hækkuð til mikilla muna eða um 44,3 prósent í einni svipan.

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata veltir fyrir sér launaþróun þingmanna og reynir að setja launin í samhengi. Þetta gerir hann í pistli á heimasíðu sinni.

„Fyrsti launaseðillinn minn frá Alþingi greiddi mér mánaðarlaun upp á 1.101.194 kr. Þá var árið 2016. Um síðustu mánaðarmót hækkuðu laun þingmanna enn og aftur og nú eru mánaðarlaunin orðin 1.285.411 kr. á mánuði og hækkuðu um 6,2% frá launum síðasta árs sem voru 1.210.368 kr,“ segir Björn Leví.

Samtals er hækkunin 16,7 prósent frá árinu 2016, en daginn eftir kosningarnar það árið ákvað kjararáð að hækka laun þingmanna um 44,3 prósent. Á sama tíma hefur þróun verðlags verið 14,7 prósent.

Björn Leví segir að eftir gríðarlega mikla hækkun kjararáðs 2016 hafi allt farið í hnút. Kjararáð var að endingu leyst upp og nýju lögin um meðatal reglulegra launa ríkisstarfsmanna komu í staðinn. Björn telur það ágætt fyrirkomulag, sanngjarnt, þó deila megi um upphæðina sem slíka. Hann birtir töflu yfir launahækkanirnar sem og töflu yfir meðaltal launa þeirra sem eru með yfir milljón í mánaðarlaun.

Björn Leví deilir pistli sínum á Facebook og í athugasemd segir félagi hans í Pírötum, Jón Þór Ólafsson sem einnig hefur látið sig þessi mál varða að hollast væri ef þingmenn og ráðherrar væru við miðgildi launa landsmanna.

„Já myndu þá betur skilja veruleika venjulegs fólks, sem er mikilvægt því þeir taka ákvarðanir um veruleika venjulegas fólks.“

Ekki er gert ráð fyrir yfirvinnu, þetta eru föst laun og þeir Jón Þór og Björn Leví segja að tímakaupið sé ekkert til að hrópa húrra yfir: „Já þeir væru þá á lægra tímakaupi en meirihluti landsmanna (þetta er brjáluð vinna) en það að fá að vinna að hugsjónum sínum hlýtur að reiknast vel til tekna, og ef ekki þá viljum við kannski ekki svoleiðis fólk við stjórn landsins,“ segir Jón Þór.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.