Innlent

Ís­land og Sviss undir­rita sam­starfs­yfir­lýsingu á sviði lofts­lags­mála

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. Vísir/Vilhelm

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra hefur undirritað viljayfirlýsingu fyrir Íslands hönd um samstarf við svissnesk stjórnvöld á sviði loftslagsmála. 

 Ráðherrann er staddur er í Slóveníu vegna óformlegs ráðherrafundar umhverfisráðherra ESB og EFTA ríkjanna. Hann átti fund með Katrin Schneeberger, ráðuneytisstjóra svissneska umhverfisráðuneytisins, þar sem undirritun fór fram.

„Í yfirlýsingunni er lýst vilja stjórnvalda beggja ríkjanna til að hefja samstarf á sviði loftslagsmála þar sem sjónum verði einkum beint að samvinnu á sviði föngunar og förgunar kolefnis úr andrúmslofti. Ísland og Sviss hafa bæði skuldbundið sig til þess að draga úr losun á gróðurhúsalofttegundum á grundvelli Parísarsamningsins,“ segir á vef stjórnarráðsins.

Fagnar samstarfinu

„Loftslagsváin er stóra áskorun samtímans,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Til þess að takast á við hana þurfum við að beita aðferðum sem við þekkjum nú þegar, en samtímis að efla nýsköpun svo nýjar aðferðir bætist við,“ segir á vef stjórnarráðsins.

„Þótt verkefni ríkja heims sé fyrst og fremst að draga úr losun hef ég líka lagt áherslu á kolefnisbindingu, þ.e.a.s. að binda koldíoxíð sem þegar hefur verið sleppt út í andrúmsloftið. Landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis eru leiðir sem við þekkjum og þurfum að beita af öllu afli, en föngun, förgun og hagnýting kolefnis getur líka verið mikilvægur hluti af lausninni. Ég fagna því samstarfi Íslands og Sviss á þessu sviði með það að markmiði að ná árangri í loftslagsmálum fyrir heiminn allan.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×