Innlent

Áttmenningar ákærðir fyrir milljónasvik á Ábyrgðasjóði

Árni Sæberg skrifar
Málið mun fara fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Málið mun fara fram fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Vilhelm

Sjö karlmenn og ein kona eru ákærð fyrir að hafa með ólögmætum hætti haft fjármuni af Ábyrgðarsjóði launa. Talið er að heildarávinningur af brotunum nemi um sautján milljónum króna. Fólkið er ýmist ákært fyrir brotin eða hlutdeild í þeim. Á meðal hinna ákærðu eru feðgar og mæðgin.

Sá sem ákærður er í flestum ákæruliðum er tengdur flestum hinum ákærðu. Tveir synir hans eru einnig ákærðir ásamt móður hans. Hann tengist öðrum ákærðum ýmist vina- eða viðskiptaböndum. Þá plataði maðurinn bróður sinn til að taka við illa fengnum fjármunum en bróðirinn er ekki ákærður í málinu.

Annar sonur mannsins hefur áður hlotið fangelsisdóma fyrir brot sem varða fjárréttindi, meðal annars fyrir að svíkja út vörur úr vefverslun Elko.

Samkvæmt ákærunni ná brotin allt til ársins 2008 en rannsókn þeira hefur staðið yfir í nokkur ár. 

Kröfur vegna gjaldþrota fyrirtækja

Svikin fólust í því að blekkja starfsmenn Ábyrgðasjóðs launa til að samþykkja hinar ýmsu kröfur á þeim forsendum að um væri að ræða vangoldin laun vegna gjaldþrota fimm nafngreindra fyrirtækja. Það var gert með því að útbúa og undirrita ráðningarsamninga sem settir voru í innheimtu í gegn um stéttarfélög.

Ákært er fyrir brot gegn ákvæðum almennra hegningarlaga um fjársvik og peningaþvætti en hámarksrefsing fyrir bæði brot er sex ára fangelsisvist.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjaness að loknu sumarfríi starfsmanna dómsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.