Innlent

LungA að ná hápunkti sínum: Treystir því að gestirnir verði þægir

Árni Sæberg skrifar
Greinilegt er að banastuð er á Seyðisfirði í kvöld.
Greinilegt er að banastuð er á Seyðisfirði í kvöld. Vísir/Snorri

Listahátíðin LungA á Seyðisfirði nær hápunkti sínum í kvöld og nótt þegar uppskeruhátíð hennar fer fram. Ball er haldið í félagsheimilinu Herðubreið þar sem nokkrar af vinsælustu hljómsveitum landsins koma fram.

Listahátíðin LungA hefur staðið yfir síðan á miðvikudag á Seyðisfirði en aðalkvöldið er í kvöld þegar listamenn og aðrir lyfta sér allrækilega upp eftir fjóra daga af nánast stanslausri listsköpun.

Veður hefur leikið við hátíðargesti eins og vænta mátti á góðu sumri á Austfjörðum. Þó verður ballið í kvöld haldið inni í Herðubreið þar sem dansað verður fram á rauða nótt.

Alls óljóst hvort hátíðin yrði haldin

Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastýra LungA, segir í samtali við fréttastofu að hátíðin hafi gengið frábærlega og að hún sé mjög glöð með hana. „Það tók svolítinn tíma að taka ákvörðun um hvort við ættum að leggja í hann eða ekki,“ segir Björt, enda var mikil óvissa með hvort hægt yrði að halda hátíðina í ár í ljósi heimsfaraldurs Covid-19. 

Björt segir aðstandendur hátíðarinnar hafa lyft grettistaki við skipulagningu enda þurfti að skipuleggja hátíðina með skömmum fyrirvara.

Býst við brjáluðu stuði

„Það verður brjálað stuð, við gefum ekkert eftir,“ segir Björt um tónleikana í kvöld. Aðspurð segir hún að hún treysti því að hátíðargestir hagi sér vel og verði þægir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×