„Ég vil kæra föður minn fyrir að hafa misnotað vald sitt yfir mér,“ sagði Spears við Brendu Penny, dómara.
„Ég vil kæra hann í dag,“ sagði hún. „Og ég vil að faðir minn verði rannsakaður.“
Þá sagði hún í dómssal að forræðið yfir henni væri „fokking grimmd“ og lýsti því að líf hennar hafi verið háð miklum takmörkunum. Hún hafi til dæmis ekki mátt drekka kaffi.
„Ef það er ekki misnotkun þá veit ég ekki hvað,“ hefur fréttastofa CNN eftir henni.
Í frétt NBC segir að Britney hafi lýst því að hún hafi verið mjög hrædd við föður sinn og að forræði hans yfir henni hafi leyft föður hennar að eyðileggja líf hennar. Hann hafi stjórnað mataræði hennar og vinnustundum og lýsti hún því að hann hafi þrælað henni til að vinna 70 klukkustunda vinnuvikur.
„Markmið þeirra var að láta mér líða eins og ég sé klikkuð og ég er það ekki,“ sagði hún. „Og það er ekki í lagi.“
Í kjölfar dómsáheyrnarinnar fékk Britney leyfi til að ráða eigin lögmann, Mathew Rosengart, til að vinna í sjálfræðismáli hennar. Britney hefur lengi reynt að losna undan forræði föður síns en hann hefur frá árinu 2008 haft lagalegt forræði yfir öllum hennar gjörðum.
Britney hafði hingað til verið skaffaður lögmaður af dómstólum en hann sagði sig frá máli hennar á dögunum eftir að í ljós kom að hann hafði ekki skilað inn gögnum sem eru nauðsynleg til þess að hún fái aftur sjálfræði.