Innlent

Hafna því að standa sig ekki í að finna fötluðu fólki heimili

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Regína Ásvaldsdóttir er sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Regína Ásvaldsdóttir er sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Vísir/Egill

Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafnar því að borgin standi sig ekki nægilega vel í uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk. Margir þeirra geðfötluðu einstaklinga sem borgin sinni hafi haft lögheimili í öðrum sveitarfélögum við komuna á geðdeild en breyti um lögheimili til að auka líkur á að fá viðeigandi húsnæði eða þjónustu sem fyrst.

Ríkisútvarpið hefur fjallað um stöðu fólks á öryggis- og réttargeðdeild á Kleppi. Meðal annars manns sem hlaut dóm fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás árið 2017. Vegna mikils andlegs vanþroska var hann metinn ósakhæfur og er enn á Kleppi fjórum árum síðar. Þótt vera hans þar hafi átt að vera stutt.

Segjast bera ábyrgð á þremur en ekki fimm af sex

Fram kom í hádegisfréttum RÚV að af sex útskriftarfærum sjúklingum sem fastir séu á geðdeildum Landspítalans vegna skorts á úrræðum sveitarfélaganna séu fimm með lögheimili í Reykjavík. Sá sjötti komi frá Reykjanesbæ. Einn hafi þó fengið úrræði sem sé ekki tilbúið.

Í tilkynningu frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar að borgin beri ábyrgð á að útvega þremur einstaklingum, sem nú dvelji á geðdeildum Landspítalans, húsnæði og stuðning. Einn hafi þegar fengið húsnæði en hinir tveir séu nýlega útskriftarhæfir. Megi gera ráð fyrir því að þeir fái húsnæði og viðeigandi stuðning í haust.

Sigurður Páll Pálsson telur sveitarfélögin, sérstaklega Reykjavík, geta staðið sig betur varðandi húsnæðisúrræði fatlaðs fólks.vísir/vilhelm

Sigurður Páll Pálsson yfirlæknir réttargeðdeildar á Kleppi sagði í hádegisfréttum að Reykjavíkurborg og sum önnur sveitarfélög hafi ekki staðið sig nógu vel í að búa til úrræði fyrir þennan hóp. Þessu hafnar Reykjavíkurborg og sömuleiðis fullyrðingum varðandi mál hins ósakhæfa manns um að Reykjavík hafi „vísað málinu frá sér“ og „útvistað málinu til ríkisins“.

Öryggisvistanir séu ekki hluti af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga, heldur hafi verið og séu á hendi ríkisins.

Skorti lagaheimildir

„Öryggisvistun er sérhæft úrræði fyrir einstaklinga sem geta verið hættulegir sjálfum sér og öðrum. Á tímabilinu maí 2018 til 1. mars 2021 tók velferðarsvið að sér að reka öryggisvistun í Rangárseli með samningi við félagsmálaráðuneytið. Þá kom fljótt í ljós að það skorti lagaheimildir til að viðhafa nauðsynlegar öryggisráðstafanir og kallaði velferðarsvið ítrekað eftir því að skýr rammi yrði settur um öryggisvistanir með setningu laga og reglugerðar.“

Búseta á vegum Reykjavíkurborgar sé veitt á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

Réttargeðdeild Landspítalans er á Kleppi.Vísir/Vilhelm

„Velferðarsvið Reykjavíkurborgar hefur lagt metnað í að veita fötluðum einstaklingum þann stuðning sem á þarf að halda í viðeigandi húsnæði frá því að málaflokkurinn kom yfir til sveitafélaga frá ríkinu árið 2011. Í Reykjavík búa í dag 462 einstaklingar í húsnæði fyrir fatlað fólk. Þar af eru 185 með geðfötlun. Mikil uppbygging hefur á undanförnum árum átt sér stað í uppbyggingu úrræða fyrir þá en á síðustu þremur árum hafa 83 einstaklingar með geðfötlun fengið úthlutað húsnæði á vegum borgarinnar, þar af eru 56 nýjar úthlutanir og 27 milliflutningar.“

Þá er vakin athygli á því að margir þeirra geðfötluðu einstaklinga sem búi í húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík hafi haft lögheimili í öðrum sveitarfélögum við komuna á geðdeild. Með aðstoð Landspítalans hafi fólkið breytt um lögheimili, í von um að fá viðeigandi húsnæði og þjónustu sem fyrst.

„Velferðarsvið hafnar því þeirri fullyrðingu yfirlæknis réttargeðdeildar Landspítalans, í frétt RÚV þann 13. júlí, að sveitarfélagið standi sig ekki nægilega vel í uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk.“

Unnið að heildarenduskoðun laga

Miðað við núgildandi lög hafi rekstur öryggisvistunar einungis stoð í almennum hegningarlögum og eigi heima á sviði refsivörslukerfisins með aðkomu heilbrigðiskerfisins.

„Unnið er að heildarendurskoðun laganna á vettvangi félagsmálaráðuneytisins. Sú vinna felur meðal annars í sér að lög verði samin um öryggisgæslu og öryggisvistun, þar sem skilgreind verða hlutverk og aðkoma ríkis og sveitarfélaga að framkvæmd þjónustunnar. Þá munu þau líka fela í sér að sú stofnun sem fyrirhugað er að setja á laggirnar geti tekið að sér að veita þeim notendum félagsþjónustunnar, sem þurfa á tímabundinni öryggisvistun að halda, þjónustu, með það að markmiði að þeir geti að henni aflokinni nýtt sér þjónustu sveitarfélaga.“


Tengdar fréttir

Hafður á réttargeðdeild vegna ráðaleysis

Maður sem vistaður var á réttargeðdeild á Kleppi fyrir fjórum árum er þar enn, þó hann hafi upprunalega átt að vera þar í stuttan tíma. Þar er hann án nauðsynlegrar þjónustu en ástæðan er ráðaleysi innan heilbrigðiskerfisins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.