Lífið

Jones úr Sex Pi­stols syrgir tapið með til­finninga­þrungnum blús

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jones birti myndband af sér spila tilfinningaþrunginn blús eftir tapið gegn Ítalíu í gær.
Jones birti myndband af sér spila tilfinningaþrunginn blús eftir tapið gegn Ítalíu í gær. Vísir/Getty

Steve Jones, gítarleikari pönksveitarinnar Sex Pistols, syrgði tap Englendinga gegn Ítalíu á EM í gær eins og margir samlandar hans hafa líklega gert. Jones birti myndband á Facebook-síðu sinni þar sem hann spilar tilfinningaþrunginn blús á gítarinn inni á baðherbergi heima hjá sér.

Eins og varla hefur farið fram hjá nokkrum manni háðu Ítalía og England einvígi á Wembley í gær í von um að tryggja sér sigur á Evrópumótinu í knattspyrnu 2020. Ítalir báru sigur úr bítum eftir spennandi leik í vítaspyrnukeppni.

Von Englendinga um að „bikarinn kæmi heim“ eftir 55 ára bið er því á enda en þeir fá annað tækifæri til að sigra stórmót á Heimsmeistaramótinu í Katar á næsta ári. Englendingar sigruðu síðast stórmót árið 1966 þegar þeir höfðu betur gegn Vestur-Þýskalandi á Heimsmeistaramótinu sem haldið var á Englandi.

Margir Englendingar hefðu líklega viljað að aðrir fótboltaáhugamenn brygðust við af sömu ró og Jones en ástandið var vægast sagt slæmt í Lundúnum í gær. Svekktar fótboltabullur leituðu á götur út og var meðal annars vegglistaverki af enska liðsmanninum Marcus Rashford, sem klúðraði vítaspyrnu, eyðilögð í nótt.

Hálfgert ófremdarástand skapaðist fyrir utan Wembley leikvanginn fyrir leikinn í gær þar sem um hundrað æstir fótboltaáhugamenn ruddu sér leið í gegn um vegatálma og reyndu að ryðja sér inn á leikvanginn sjálfan. Engum þeirra tókst þó að koma sér inn á völlinn.

Þá hafa fótboltabullur í Englandi verið gagnrýndar fyrir kynþáttaníð gegn Rashford, Jadon Sancho og unga leikmanninum Bukayo Saka. Þeir tóku allir þátt í vítaspyrnukeppninni gegn Ítalíu en klúðruðu allir sínum skotum.


Tengdar fréttir

Utan vallar: Southgate gjörsamlega í bullinu, eða hvað?

Þeir voru ekki lengi að snúast gegn honum. Gareth Southgate. Landsliðseinvaldinum sem setti mikla ábyrgð á herðar ungstirna enska landsliðsins í vítaspyrnukeppninni gegn Ítalíu í gær. Þjálfari með allt niðrum sig. Glórulaus ákvörðun. Reka manninn!
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.